Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Blaðsíða 20
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201520
VEGFERÐ TIL FULLORÐINSALDURS
mismunun. Hins vegar yrðu þær til þess að einstaklingar tækju frekar en áður á sig
sök og ábyrgð á takmarkaðri velgengni sjálfra sín. Félagsleg gangvirki mismununar
væru faldari en fyrr og um leið miskunnarlausari (Beck, 1986/1992; Beck og Gerns-
heim, 2002).
MISMUNANDI BREYTINGAR Á VEGFERÐ – HVAÐ UM ÍSLAND?
Breytingar á vegferð ungmenna hafa engan veginn verið hinar sömu í ólíkum löndum,
jafnvel þótt einungis sé horft til Evrópu og Norður-Ameríku, og breytingarnar hafa
einnig orðið mjög mishraðar. Þannig einkennist vegferðarsaga Bretlands af því að
iðnvæðing varð þar snemma og að vegferð ungmenna varð síðan einn þeirra sam-
félagsþátta sem breyttust hægt á löngum tíma; afar stór hluti hverrar kynslóðar fór á
unglingsárum úr skóla í almenn störf í iðnaði og víðar, en á áttunda og níunda áratug
20. aldar skrapp sá hluti verulega saman, og verulegt hlutfall hverrar kynslóðar tók
að glíma við ungmennaatvinnuleysi sem hafði þá lengi verið lítið (Shildrick og Mac-
Donald, 2007). Þessi þróun endurspeglast í tveim heitum sem orðið hafa til yfir vaxandi
jaðarhópa. Annað er NEET (Not in Education, Employment or Training – Hvorki í
námi, starfi né starfsþjálfun, sjá Bynner og Parsons, 2002). Hitt er Precariat (samsett
úr orðunum precarious og proletariat) sem vísar til þeirra sem eru í lausa- og hluta-
störfum án þess að öðlast endingargóða þjálfun (Standing, 2011).
Engilsaxneskt forræði í félagslegum rannsóknum hefur orðið til þess að oft er þróun
og gerð bandarísks eða bresks samfélags yfirfærð á önnur samfélög eða að önnur
þróun er talin vera afbrigði við „almenna þróun“. Í rannsóknum á vegferð (og menn-
ingu) ungmenna hefur bresk þróun orðið slíkt viðmið. Staðreyndin er hins vegar sú að
bresk þróun, ekki síst hvað varðar vegferð ungmenna, er alveg jafn sérstök og þróun
annarra landa. Þannig leystist „vinnumarkaður ungmenna“ að mestu upp í Bretlandi
á árabilinu 1977–1991 (Furlong og Cartmel, 1997) þegar einföldum störfum í iðnaði
og víðar stórfækkaði, og varð það sennilega helsti hvatinn að skipulegum vegferðar-
rannsóknum þar í landi. Í þýskumælandi löndum hefur iðnnámið verið uppistaðan í
vinnumarkaði ungmenna og sá markaður hefur engan veginn hrunið. Á Norðurlönd-
um hefur vinnumarkaður ungmenna vissulega minnkað og breyst en ekki hrunið,
t.d. hefur vinna ungmenna með námi stóraukist (Margrét Einarsdóttir, 2014). Í Suður-
Evrópu hefur atvinnutækifærum ungmenna fækkað verulega og með kreppunni frá
2008 hefur þar orðið til mesta atvinnuleysi ungmenna í Vestur-Evrópu frá kreppu
fjórða áratugarins og bitnar það líka á ungu fólki á fertugsaldri. Slíkan margbreyti-
leika má ekki síður finna í öðrum þáttum vegferðar, svo sem barneignum, stofnun
eigin heimilis og menntunarsókn, í sumum löndum býr t.d. afar stór hluti atvinnu-
lausra ungmenna hjá foreldrum sínum, jafnvel fram á miðjan aldur (Moreno, 2012).
Á ýmsan hátt má stilla þróun á vegferð ungmenna á Íslandi upp sem andstæðu
hinnar bresku þróunar. Í nútímavæðingu Íslands urðu hliðstæðar breytingar á einni
öld og annars staðar gerðust á einni og hálfri, tveimur eða enn fleiri öldum. Ólíkt
flestum eða öllum Evrópulöndum má segja að á þessari öld hafi hver ný kynslóð
Íslendinga farið talsvert aðra vegferð en næsta kynslóð á undan. Vissulega hefur þó