Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Side 36
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201536
GRUNN- OG LEIKSKÓLASTJÓRAR Á ÍSLANDI – KULNUN Í STARFI ?
Nuallaong (2013) og Kraft (2006) hafa það eftir Freudenberger og North að kulnun
byrji með óraunhæfum væntingum starfsmannsins til sjálfs sín og það geti verið upp-
haf ferlis í 12 stigum (e. 12-stage burnout cycle). Í upphafi birtist þetta sem sú árátta
starfsmannsins að þurfa sífellt að sanna sig í vinnu og sýna samstarfsmönnum og
sjálfum sér hvað í honum býr. Síðan fer starfsmaðurinn að vinna meira og verður
gagntekinn af því að vera ómissandi. Í framhaldinu fer hann að vanrækja þarfir sínar
og sýna einkenni vinnufíknar. Önnur stig í ferlinu eru t.d. endurskoðun gilda, af-
neitun á vaxandi vandamálum og að starfsmaðurinn fer að draga sig í hlé. Greini-
legar breytingar verða á hegðun og starfsmaðurinn hættir að skynja eigin þarfir. Efstu
stigin eru síðan þunglyndi og kulnun. Ekki er víst að allir fari í gegnum öll kulnunar-
stigin eða í framangreindri röð. Starfsmaðurinn getur farið í gegnum nokkur þeirra á
sama tíma og það getur líka verið einstaklingsbundið hve langan tíma hvert stig tekur
(Kraft, 2006; Nuallaong, 2013).
Í rannsóknum á orsökum kulnunar hafa bæði einstaklings- og aðstæðubundnir
þættir verið skoðaðir. Þegar talað er um einstaklingsbundna þætti er einkum átt við
persónueinkenni, geðraskanir og tauga- og lýðfræðilega þætti, þar með talinn kynja-
mun (Purvanova og Muros, 2010; Tokuda o.fl., 2009). Aftur á móti geta aðstæðu-
bundnir þættir verið starfsaðstæður og starfsumhverfi, eins og vinnuálag, lítið starfs-
öryggi eða skortur á stuðningi (Fugate, Kinicki og Prussia, 2008; Scheck og Kinicki,
2000).
Hvað varðar skólastarf hafa aðstæðubundnir þættir sem ýtt geta undir þróun
kulnunar hjá skólastjórum verið kannaðir (Cooper og Kelly, 1993; Friedman, 2002).
Friedman (2002) tók saman niðurstöður úr rannsóknum á helstu stofnanalegu streitu-
völdum hjá skólastjórum í grunn- og framhaldsskólum sem stuðluðu að kulnun og
ályktaði að helstu áhættuþættirnir væru of mikið vinnuálag og krefjandi samskipti
við aðra. Aðrir þættir voru til dæmis ósamkomulag og óvissa um hlutverk skólastjóra
innan stofnunar, stofnanaskipulag, starfsandi, starfsþróun, ófullnægjandi úrræði og
ytra umhverfi. Friedman (2002) tengdi kulnun meðal skólastjóra í grunn- og fram-
haldsskólum samskiptum og komst að því að samband þeirra við kennara og foreldra
var eitt af því sem helst leiddi til kulnunar þeirra. Leikskólastjórar lýsa ákveðinni
klemmu í stjórnun; þeir vilji færa aukið vald til deildarstjóra en þeir séu ekki alfarið
tilbúnir að taka við þeirri ábyrgð (Arna H. Jónsdóttir, 2001). Einnig hefur Arna H.
Jónsdóttir (2009) bent á átök innan leikskóla milli þess sem mætti kalla kvenlæga
umhyggju- og samskiptastjórnun og karllæga píramída- og skrifræðisstjórnun sem
leiða til vandamála í starfsmannahópnum og reyna vafalítið á leikskólastjórana.
Samkvæmt Maslach og Leiter (1997) liggja orsakir kulnunar frekar í starfsumhverfi
en innra með starfsmanninum sjálfum. Til að dýpka skilning á kulnun hönnuðu þau
líkan, sem þau kölluðu job-person fit model. Líkanið sameinar einstaklings- og aðstæðu-
bundna þætti. Það skiptist í sex þætti sem allir gegna mikilvægu hlutverki fyrir starfs-
manninn í sambandi við aðstæður á vinnustað: (1) vinnuálag, (2) stjórnun, (3) sam-
félag, (4) umbun, (5) sanngirni og (6) gildi. Ef mikið og langvarandi ósamræmi er á
milli starfsmanns og vinnustaðar hvað varðar þessa sex þætti þá aukast líkurnar á því
að hann upplifi kulnun (Maslach og Leiter, 1997).