Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Síða 62
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201562
ÞVERSTÆÐAN UM LÝÐRÆÐISLEGT SKÓLASTARF
Hvað varðar nám í skólum, allt frá leikskóla og upp í háskóla, er vert að spyrja að
minnsta kosti þrenns konar spurninga um kennivald:
(a) Hvaðan kemur kennivaldið?
(b) Hvernig er kennivaldi beitt?
(c) Til hvers er kennivald notað?
Í hefðbundnu menntuninni sem Sókrates andæfði svo eftirminnilega er (a) uppspretta
kennivalds í hefð og stöðu kennarans, (b) því er beitt með því að sá sem hefur þekk-
ingu og stöðu (t.d. sófisti) miðlar þekkingu og leitast við að sannfæra þann sem skortir
þetta tvennt og (c) beiting þess hefur það markmið að nemendurnir – hinir yngri – læri
bæði ýmis fræði en líka að bera virðingu fyrir hinum eldri, að taka upp siði samfélags-
ins og feta að því leyti í spor feðranna. Öndvert þessu leit Sókrates svo á að réttmætt
kennivald (a) væri afrakstur opinnar rökræðu, (b) því væri beitt með því að láta reyna
á staðhæfingar sem settar hafa verið fram og (c) markmiðið með beitingu þess væri
leit að sannleika.
Mér virðist að sú menntun sem lögð er áhersla á í íslenskum skólum sé oft meira
í anda hinnar hefðbundnu menntunar heldur en þeirrar sókratísku menntunar sem
Nussbaum kallar eftir. Nemendur í íslenskum skólum þurfa að beygja sig undir
kennivald og eru þá jafnan í stöðu þiggjenda frekar en gerenda. Af samtölum mínum
við nemendur, kennara og skólastjórnendur virðist mér að nemendur sæki kennivald
ekki til skynseminnar – kennivald verður ekki til sem afrakstur af rannsókn, t.d. rök-
ræðu – heldur sé það fengið beint úr bókum sem leggja til viðmið um rétt og rangt eða
af vörum kennarans sem einnig leggur mat á gildi þekkingar. Ef til vill er þessi skoðun
mín óþarflega neikvæð, en að því marki sem þessir hlutir hafa verið rannsakaðir með
skipulegum hætti er ljóst að kennarinn og kennslubókin eru ráðandi um efnistök
og aðferðir, og það er í kennivald þeirra sem viðmið um rétt og rangt, gott og vont,
verðugt og ómerkilegt eru sótt. Að þessu leyti eru nemendur frekar í hlutverki þiggj-
enda en gerenda í námsferlinu (Gerður G. Óskarsdóttir, 2014). Utan skóla er kennivald
fengið með jafnvel enn ákveðnari hætti úr menningu, tísku og af vörum álitsgjafa.
Þegar komið er upp í háskóla eru nemendur upp til hópa orðnir svo handgengnir að-
fengnu kennivaldi að þeir verða ráðvilltir ef ekki kemur skýrt fram hvað skipti máli,
hvað eigi að lesa, hvað sé til prófs, hvað eigi að koma fram í verkefni o.s.frv. Í há-
skólunum heldur leikurinn áfram og þaðan útskrifast fólk sem hefur kannski fengið
upp undir 20 ára nám í því að spyrja aðra um hvað sé rétt eða rangt, hvað skipti máli,
hvað sé áhugavert og hvað sé til prófs. Páll Skúlason setti fram sumpart sambærilega
gagnrýni á íslenskt skólakerfi í greininni Menntun og stjórnmál með þeim orðum að
skólakerfið væri fræðslukerfi en ekki menntakerfi (Páll Skúlason, 1987a).
Þetta er ekki ný staða. Á 18. öld skrifaði þýski heimspekingurinn Immanuel Kant
innblásna og fræga grein um mikilvægi þess sem hann kallaði upplýsingu, Svar við
spurningunni: Hvað er upplýsing? Hann áleit að skortur á hugsun stafaði ekki endi-
lega af skorti á vitsmunum heldur væri um siðferðilega bresti að ræða. Greinin hefst
á eftirfarandi orðum: