Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Qupperneq 64
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201564
ÞVERSTÆÐAN UM LÝÐRÆÐISLEGT SKÓLASTARF
í eigin lífi (Nussbaum, 1998, bls. 21) sem hafi birst í því að mikilvægustu athafnir þess
og ákvarðanir byggðust á skoðunum sem það þáði af hefðinni án þess að gera þær
að sínum í einhverjum bitastæðum skilningi. Með spurningum sínum, einfeldni og
einlægni ýtti Sókrates við fólki – hann stakk það eins og broddfluga, jafnvel þar sem
mest sveið, þannig að það komst ekki upp með það andlega framtaksleysi sem var svo
þægilegt fyrir yfirstéttina. Sókrates lýsir þessu ágætlega á einum stað í Málsvörninni:
Þegar ég fór nú að reyna manninn – ég þarf ekki að nafngreina hann, en hann var
reyndar stjórnmálamaður – og þegar ég var að rannsaka hann, þá reyndist mér og
leizt svo, að bæði mörgum öðrum og þó einkum honum sjálfum þætti hann vera
vitur, en hann væri það ekki í raun og veru. Leitaðist ég því næst við að sýna honum
fram á, að hann þættist reyndar vera vitur, en væri það ekki. Af þessu lagði hann fæð
á mig og margir aðrir, sem við voru staddir. En á leiðinni heim til mín hugsaði ég svo
með sjálfum mér: Vitrari er ég þó en þessi maður. Reyndar virðist hvorugur okkar
vita neitt fagurt né gott, en hann þykist vita eitthvað, þótt hann viti ekkert, en það er
hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. (Platón, 1990b,
21, bls. 37)
Í inngangi að Síðustu dögum Sókratesar, bók sem hefur að geyma þrjár af samræðum
Platons, Málsvörn Sókratesar, Krítón og Faídón, fjallar Sigurður Nordal um líf og dauða
Sókratesar en einnig um það hvers vegna hann hafi haft jafn mikil áhrif á heimspeki
Vesturlanda og raunin er, og hvers vegna hann hafi verið svo hataður af valdamönn-
um Aþenu. Sigurður segir m.a.:
Það sem ræður aldahvörfum í sögu heimspekinnar, er ekki frumleikur Sókratesar í
hugsun, heldur hreinleikur viðleitni hans. Heimspekin fær Sókratesi aldrei fullþakkað,
að skapfesta hans og mannkostir vöktu við vöggu hennar. Sókrates setti sér það
mark, að leita að sönnum og algildum reglum um breytni manna, í þeirri von, að þá
væri allt fengið, því að enginn mundi breyta móti betri vitund. Honum kom ekki til
hugar að kenna, sem sjálfur var síleitandi, hvað þá að taka gjald af mönnum fyrir að
tala við þá. Ekkert leiddi hann því til þess, líkt og sófistana, að tala eins og hver vildi
heyra. Yfirlætisleysi hans og vantraust á þekkingu sinni lagði honum rannsóknar-
aðferðina upp í hendur: Hann spurði jafnan til þess að fræðast af öðrum. (Sigurður
Nordal, 1990, bls. 12–13)
Sigurður leggur hér megináherslu á aðferð Sókratesar og víst er að einmitt með þeirri
aðferð að spyrja opinna spurninga, vera leitandi og umfram allt fullkomlega einlægur
í þekkingarleit sinni, var Sókrates hinum bestu heimspekingum frábær fyrirmynd.
Ástæðan fyrir því að Nussbaum segir að nútíminn þurfi svo sárlega á sókratískri
menntun að halda er sú að góður borgari – borgari sem er fær um að takast á við þær
áskoranir sem fylgja því að búa í lýðræðislegu samfélagi – þarf að hafa til að bera þá
eiginleika sem Sókrates lagði svo ríka áherslu á; hæfileikann til að spyrja spurninga og
leita sannleika í fullkominni einlægni.