Dagblaðið Vísir - DV - 27.04.2012, Blaðsíða 28
28 Umræða 27.–29. apríl 2012 Helgarblað
Jóhann Benediktsson Ertu
skráður í einhvern
stjórnmálaflokk?
Jón: Nei.
Sigurður Eggertsson
Hvernig gengur að safna
undirskriftum og hvar getur
maður skrifað undir ef maður vill
styðja framboðið?
Jón: Það gengur hægt að safna
undirskriftum og hvet ég alla sem
vilja styðja framboðið að hafa
samband við mig í gegnum vefinn
jonlarusson.is Einnig þætti mér
vænt um að heyra frá þeim sem
gætu aðstoðað við að safna með-
mælendum. Ég stend fyrir mál-
stað sem ég tel nauðsynlegt að
fólk fái tækifæri til að kjósa um.
Aðalsteinn Kjartansson Þú
ert augljóslega ekki sáttur við
að Ólafur Ragnar sitji áfram
sem forseti. Af hverju eiga kjósendur
frekar að kjósa þig en hann? Hvað
hefur Ólafur gert sem þú hefðir ekki
gert?
Jón: Þegar ég bauð mig fram hafði
Ólafur sagt að hann vildi snúa sér
að öðru. Hann nefndi það líka að
hann héldi áfram af illri nauðsyn
frekar en áhuga. Ég bendi á að ég
er ekki að sækjast eftir kjöri til að
gera ekkert, heldur hef ég skýra
stefnu sem ég tel geta leitt þetta
samfélag fram á veginn. Ég tel að
enginn forsetaframbjóðandi muni
ganga eins langt og ég í að hjálpa
almenningi.
Aðalsteinn Kjartansson Þú
svaraðir ekki spurningunni,
Jón: Hvað hefur Ólafur gert
sem þú hefðir ekki gert?
Jón: Ólafur fór lengra í stuðningi
sinum við fjármálakerfið en ég
hefði gert. Forseti á að styðja við
atvinnulífið, en hann á að gera
miklar kröfur til þess á móti.
Sigurður Eggertsson Hver er
afstaða þín til umsóknar og
mögulegrar inngöngu í ESB?
Jón: Ég er andvígur inngöngu
í ESB þar sem ég tel framtíð
Íslands best borgið sem frjálsu
og fullvalda. Þjóð sem ekki hefur
forræði löggjafar sinnar, fjármála,
utanríkismála og dómsmála er
ekki sjálfstæð.
Jón Jónsson Í stuttu máli
– hvað stendur þú fyrir ?
Jón: Ég stend fyrir heiðar-
leika og rétt almennings til að
ákvarða framtíð sína. Ég tel að
það sé kominn tími til að almenn-
ingur fái að ráða því hvernig þetta
samfélag þróast.
Andrés Jónsson Viltu þá að
við segjum okkur úr EES?
Jón: Ég tel að við eigum að
skoða vandlega hvort aðildin að
EES hafi verið okkur til farsældar
eða ekki. Sjálfur er ég verulega
efins um að hún hafi verið til
farsældar.
Fundarstjóri Hverjar telur þú
meginorsakir hrunsins? Er
hægt að benda á ákveðna
hópa eða flokka í því samhengi?
Jón: Hrunið er tilkomið vegna
kerfisvillu í því fjármálkerfi sem
við og allur heimurinn hefur sett
traust sitt á. Það verður ekki nein
raunveruleg breyting nema við
breytum þessum þætti. Fjár-
málakerfi, sem byggir á því að nýtt
fjármagn verður aðeins til með
skuldsetningu, mun ALDREI leiða
til farsældar heldur alltaf draga
samfélagið niður í skuldakreppur.
Dagbjartur Lúðvíksson Má,
af eindreginni afstöðu þinni
gegn alþjóðaskuldbind-
ingum, draga þá ályktun að þú teljir
embætti forseta Íslands eiga að vera
pólitískt?
Jón: Ég er ekki andsnúinn alþjóða-
skuldbindingum, ég tel hins vegar
að við eigum ekki að halda í sam-
band sem vinnur gegn okkur en
ekki með. Íslenska fjármálakerfið
var sniðið að lögum sem byggðu á
EES-samningnum, enda sjáum við
þetta vinna svipað í Grikklandi, Ír-
landi og víðar. Embætti forsetans
er pólitískt í eðli sínu. Hins vegar
tel ég að það eigi ekki að vera
flokkspólitískt. Sem handhafi
framkvæmdavaldsins getur það
ekki orðið öðruvísi
Finnborg Þóreyjar- Stein-
þórsdóttir Jón, ertu
femínisti?
Jón: Ég hef ekki talið mig sér-
stakan femínista, en ég er hins
vegar fylgjandi algjöru jafnræði
einstaklinganna og á móti mis-
munun.
Ólöf Baldursdóttir Ef þú ert
fylgjandi algjöru jafnræði
einstaklinganna og á móti
mismunun hlýtur þú jafnframt að vera
femínisti? Af hverju segist þú ekki vera
femínisti?
Jón: Ef femínisti er jafnræðissinni,
þá er ég það. En ég skilgreini mig
bara sem manneskju í grunninn.
Helga Eiríksdóttir Sæll, Jón.
Ef þú næðir kjöri segist þú
ætla að ganga lengra en aðrir
frambjóðendur til að hjálpa
almenningi. Nákvæmlega hvað áttu
við með því?
Jón: Ég hef bent á lausnir varðandi
skuldastöðu heimilanna og mun
beita mér fyrir því að þær verði
framkvæmdar. Ég hef líka lagt
til að tryggð verði lágmarks-
framfærsla allra einstaklinga.
Íslendingar hafa ekki búið við
raunverulegt lýðræði og mun
ég vinna að því að almenningur
fái þá lýðræðislegu aðkomu að
samfélaginu sem hann á rétt til.
Í þessu sambandi vísa ég til 25.
gr. stjórnarskrárinnar og í valdi
hennar mun ég leggja fram frum-
varp um þjóðaratkvæði þar sem
almenningur fær ótakmarkað vald
til að kalla eftir þjóðaratkvæði.
Natan Kolbeinsson Hvernig
líður þér með ein hjúskapar-
lög og jafnan rétt
samkynhneigðra ?
Jón: Eins og ég sagði, þá er ég fylgj-
andi jafnræði allra einstaklinga
og þá skiptir engu hver kynhvöt
þeirra er. Ef fólk vill búa saman þá
á það að hafa frelsi til þess.
Sigurður Eggertsson Nú
hefur mikil umræða verið um
leynd fjárframlaga í
kosningarsjóð. Hvaða fyrirkomulag
hefur þú á því hjá þér?
Jón: Ég ætla mér að opinbera öll
framlög í kosningabaráttuna
mína.
Fundarstjóri Hvar verða þau
birt og hvenær?
Jón: Ég mun nota
vefsíðuna jonlarusson.is til þess.
Almenningur á rétt á að vita
hvaða fjármagn stendur á bak
við kjörna fulltrúa alveg óháð
upphæð.
Aðalsteinn Kjartansson
Hefurðu hlotið dóm? Ef já,
fyrir hvað? Ef nei, hefur þér
verið stefnt fyrir dóm eða hefur þú
verið ákærður?
Jón: Hef aldrei hlotið dóm né verið
ákærður. Hins vegar hefur mér
ótal oft verið stefnt sem vitni fyrir
dóm, nokkuð sem fylgir því að
vera lögregluþjónn.
Heiða Heiðars Hvernig sérðu
fyrir þér að embættið yrði
með þig sem forseta?
Jón: Embættið yrði virkara og tæki
meiri afstöðu með hagsmunum
almennings innanlands og gætti
hagsmuna þjóðarinnar erlendis.
Heiða Heiðars Sem hluti af
lögregluliði; hvað fannst þér
um búsáhaldabyltinguna?
Jón: Ég get bara svarað fyrir mig
persónulega, en ég skil ekki af
hverju hún lognaðist út af eftir
kosningar. Ekkert hefur batnað
hvað almenning varðar. Hefur
ástandið frekar versnað ef eitt-
hvað er.
Natan Kolbeinsson Hver er
afstaða þín til frumvarps
stjórnlagaráðs?
Jón: Ég tel að tillaga stjórn-
lagaráðs muni ekkert bæta í
samfélaginu, heldur þvert á móti
festa í sessi það óréttlæti sem
nú ríkir og hafa fyrir fullt og allt
lýðræðið af almenningi.
Fundarstjóri Að hvaða leyti
eru tillögur stjórnlagaráðs
slæmar að þínu mati?
Jón: Þær takmarka rétt almenn-
ings til þjóðaratkvæðis og tryggja
í sessi ráðherraræðið sem ríkt
hefur á Íslandi og dregur úr vald-
dreifingu kjörinna fulltrúa.
Björn Gunnarsson Hvaða
stjórnmálaflokk kaustu í
síðustu alþingiskosningum?
Jón: Ég skilaði auðu.
Aðalheiður Guðjónsdóttir
Hver telur þú að sé ástæða
hins litla fylgis sem þú mælist
með, miðað við hvað málefni þín eru
frambærileg og ættu sannarlega að
höfða til margra (einkum hugmyndir
um fjármálakerfið og verðmætamat)?
Jón: Held að afstaða fjölmiðla ráði
miklu þar um. Var afskrifaður af
fjölmiðlum strax í upphafi og voru
þeir ekki að fela það neitt.
Björn Gunnarsson „Var
afskrifaður af fjölmiðlum
strax í upphafi og voru þeir
ekki að fela það neitt.“ Geturðu
útskýrt þetta betur?
Jón: Þegar verið var að nefna
mig í fjölmiðlum var viðhorfið
oftast að ég ætti engan séns og
væri því ekki marktækur, hvað
sem í því felst. Svo er það ágætis
vísbending að boða blaðamanna-
fund og enginn mætir.
Helgi Hauksson Sagt er að
smáþjóðir fái ekki staðist til
lengdar nema í bandalagi
með mörgum öðrum þjóðum. Hvernig
hyggstu tryggja framtíðarsjálfstæði
landsins?
Jón: Þjóðir eiga ekki vini, heldur
hagsmuni. Ég mun leitast við að
vinna með þeim þjóðum sem hafa
sameiginlega hagsmuni með
okkur. Að festa sig í valdalausu
sambandi 500 milljóna, en um
leið loka á hina 6 milljarðana,
ber ekki vott um skynsemi að
mínu viti.
Heiða Heiðars Tillögur
stjórnlagaráðs gera ráð fyrir
að 10% atkvæðisbærra
Íslendinga geti farið fram á
þjóðaratkvæðagreiðslu. Þú kallar það
takmörkun? Vinsamlega útskýrðu
það.
Jón: Það má ekki kjósa um
fjárhagslega þætti, erlendar
skuldbindingar eða atriði sem
varða sérhagsmuni. Þarna sjáum
við í hendi okkar að við getum
ekki kosið um Icesave, ESB eða
kvótann.
Helga Eiríksdóttir Hvert er
viðhorf þitt til orðuveitinga?
Yrðu breytingar á þeim?
Myndirðu mögulega nýta þér rétt þinn
til að svipta einhverja heiðrinum og
innkalla ef til vill einhverjar „illa
gefnar“ orður?
Jón: Ég ber mikla virðingu fyrir
fálkaorðunni og svíður hvernig
henni hefur verið beitt. Ég mun
frekar draga úr veitingum og þá til
einstaklinga sem hafa gert meira
en þeim bar en ekki bara unnið
vinnuna sína. Það á að mínu viti
að svipta menn orðunni hafi þeir í
verki svert þann heiður sem þjóðin
veitti þeim með henni.
Baldur Guðmundsson
Hvernig metur þú möguleika
þína á því að ná kjöri?
Hefurðu íhugað að hætta við?
Jón: Fái ég næga meðmælendur
og geti tekið þátt í kappræðum
við aðra frambjóðendur, þá tel
ég mig eiga góða möguleika. Ég
mun ekki hætta nema tilneyddur,
það er ekki í mínum karakter að
gefast upp.
Fundarstjóri Þessi kom í
gegnum tölvupóst frá
lesanda: Hvað talarðu mörg
tungumál?
Jón: Ensku, dönsku, frönsku og
get spjallað á norsku og sænsku
(skandinavísku) svo tala ég
ágætis íslensku.
Stefán Sigurbjörnsson
Telurðu fullveldi okkar skert
med aðild að NATO?
Jón: Já, þegar við erum aðilar í
árásarstríði og teljum okkur hlut-
laus, þá er fullveldið skert.
Stefán Sigurbjörnsson „Að
festa sig í valdalausu
sambandi 500 milljóna, en
um leið loka á hina 6 milljarðana.“
Telur þú lönd eins og Frakkland og
Þýskaland fullveldislaus og með engin
tengsl við samfélagið utan ESB?
Jón: Fullveldi þeirra er verulega
skert og þegar Lissabon-sátt-
málinn tekur að fullu gildi, þá er
utanríkisstefna þessara landa háð
utanríkisstefnu ESB.
Heiða Heiðars Er tilefni til að
efast um að þú eigir erindi til
Bessastaða í ljósi þess að þú
ert í vandræðum með að safna
meðmælendum?
Jón: Nei. Tregðan með meðmæl-
endurna er að mínu viti tilkomin
þar sem fólk hefur ekki fengið
tækifæri til að kynna sér það sem
ég stend fyrir.
Atli Fanndal Hver er afstaða
þín til 17. gr. stjórnarskrár-
innar, þeirrar sömu og Geir H.
Haarde var dæmdur fyrir brot á? Telur
þú eðlilegt að tala um brot á
formsatriði í tilfelli stjórnarskrárinnar?
Jón: 17. greinin fjallar um skyldu
ríkisstjórnar til að halda fundi og
upplýsa um mál er varða þjóðina.
Ef eitthvað er skráð í lög eða
stjórnarskrá, þá ber að fara eftir
því og dómstólar eiga að taka
afstöðu til þess komi til ákæru.
Telji samfélagið að þessi ákvæði
eigi ekki að skipta máli, þá þarf að
breyta lögum eða stjórnarskrá.
Stefán Sigurbjörnsson Hver
er afstaða þín til sitjandi
ríkisstjórnar? Nú mælist hún
ekki vel fyrir. Myndir þú rjúfa þing og
boða til kosninga eða mynda
utanþingsstjórn ef þú næðir kjöri til
forseta?
Jón: Sem handhafi framkvæmda-
valds mun ég krefjast þess að
ríkisstjórnin fari að vinna að hag
almennings í landinu. Geri hún
það ekki, þá tel ég best að skipa
utanþingsstjórn.
Örn Reynir Ólafsson Styður
þú lögleiðingu kannabiss?
Jón: Eins og staðan er
í dag styð ég ekki lögleiðingu
kannabiss. En er þetta ekki eitt-
hvað sem væri tilvalið að þjóðin
tæki afstöðu til í þjóðaratkvæði?
Helgi Hauksson Hvernig
væri einráður forseti
heppilegur til að auka
lýðræði?
Jón: Einráður forseti væri ekki
heppilegur til þess. Með því að
taka framkvæmdavaldið út
úr Alþingishúsinu mun Alþingi
styrkjast, enda ber forseta og
framkvæmdavaldi að fara að
lögum og ákvörðunum Alþingis.
Svavar Bjarnason Þú segist
vera óflokksbundinn. En
hefur þú ekki starfað innan
Sjálfstæðisflokksins?
Jón: Gerði það fyrir mörgum árum.
Hætti því alveg árið 1993 eftir að
hafa misst trúna á að starf innan
þessara flokka væri vænlegt til
árangurs.
Færri fálkaorður
Jón Lárusson er í framboði til forseta Íslands. Hann sat fyrir svörum á Beinni línu DV.is á miðvikudag.
Vinsæl
ummæli
við fréttir DV.is í vikunni
„Það er töff að vera
öðruvísi... það eiga
allir rétt á því að
vera eins og þeir eru og við
eigum að koma fram við alla
af virðingu og vinsemd. Eitt
bros getur dimmu í dagsljós
breytt.“
Páll Magnús Guðjónsson um
viðtal við móður 12 ára stúlku
með ódæmigerða einhverfu sem hefur
verið lögð í einelti.
„Okei... Ég fékk smá
kjánahroll fyrst,
en ákvað að horfa
aftur á þetta með víðu og opnu
hugarfari. Mín niðurstaða er
einföld: Ég segi oft við mig og
fólkið í kringum mig - Lifðu
lífinu lifandi, eins og enginn sé
morgundagurinn... Þetta er án
alls vafa þannig uppátæki.......
BRAVÓ !!!!!“
Gísli Birgir Ómarsson um frétt
á DV.is um dans Elísabetar
Ólafsdóttur í Kringlunni.
„Það getur farið svo að
þrjár konur verði í eftir-
sóttustu djobbunum á
Íslandi hreppi Þóra Bessastaði.
Góð tilbreyting.“
Rögnvaldur Þór Óskarsson
um frétt DV.is um að Agnes
M. Sigurðardóttir verði fyrsta
konan til að taka við embætti biskups
þjóðkirkjunnar.
„Birgitta Jóns-
dóttir er stórhættuleg
kona. Á sama hátt
og hryðjuverkamaðurinn
Lárus Páll Birgisson hefur hvað
eftir annað ógnað stríðsrekstri
Bandaríkjanna og Nató með
pappaspjaldi, hefur Birgitta
ítrekað stefnt friðhelgi mann-
réttindabrota Kínverja í voða,
með því að standa fyrir utan
Kínverska sendiráðið og beina
ógnþrungnu augaráði sínu í
átt að húsinu. Stundum ein
en stundum í fylgd allt að 40
friðardólga sem þekktir eru fyrir
álíka skæruliðastarfsemi og
stingandi augu.“
Eva Hauksdóttir um frétt DV af
viðvörun sem bandaríska sendi-
ráðið sendi á alla bandaríska
ríkisborgara hér á landi í tilefni af mót-
mælum Vina Tíbets fyrir utan Hörpuna.
„Fólk sem finnst þetta
ekki fallegt útlit er
oftast yfir kjörþyngd
og nennir ekki að taka á vanda-
málinu hjá sér heldur situr það
heima og setur út á fólkið sem
hefur agann og sjálfstjórina
til að ná svona langt í þessari
skemmtilegu og uppbyggjandi
íþrótt!“
Esther S. Jóhannsdóttir um
viðtal við Fjólu Björk Gunn-
laugsdóttur, Evrópumeistari og
fyrrverandi Íslandsmeistari í módel-
fitness sem ræðir jákvætt um íþróttina.
„Kominn tími til, núna
er það bara næsta
skref, sér akrein fyrir
kvenfólk.“
Kristófer Ernir Guðmunds-
son um frétt þess efnis að í
bílastæðahúsi Hörpu séu sér
bílastæði merkt konum og fötluðum.
37
7
26
11
89
Nafn: Jón Lárusson
Aldur: 46 ára
Starf: Lögreglumaður
Menntun: Sagnfræðingur
19