Dagblaðið Vísir - DV - 31.01.2014, Blaðsíða 26
Helgarblað 31. janúar 201426 Fréttir Erlent
„Held að ég sé enn
fastur í námunni“
n Eftirmálar námuslyssins í Chile 2010 n Enginn hefur fengið bætur greiddar
C
hile-maðurinn Alex Vega er
einn þeirra þrjátíu og þriggja
námuverkamanna sem var
bjargað úr San Jose-námunni í
Atacama-eyðimörkinni í Chile
árið 2010. Björgunaraðgerðin fang-
aði athygli heimsbyggðarinnar og var
meðal annars hægt að fylgjast með í
beinni sjónvarpsútsendingu þegar
hver námuverkamaðurinn á fætur
öðrum var dreginn upp úr námunni.
Þó svo að allt hafi farið vel að lokum
glíma verkamennirnir enn við af-
leiðingar einangrunarinnar, en 69
dagar liðu áður en þeim var bjargað.
Gleymir hlutum
„Ég fæ martraðir og vakna stundum
upp og held að ég sé enn fastur í
námunni,“ segir Vega í samtali við
breska ríkisútvarpið, BBC, og bætir
við að hann vakni upp öskrandi. Þetta
er ekki eina vandamálið sem hann
glímir við. Hann var til dæmis við-
staddur fæðingu þriggja barna sinna
án þess að muna eftir því. Hann
gleymir hlutum, á erfitt með að ein-
beita sér og glímir við miklar skap-
sveiflur. Hann hefur reynt að vinna
bug á erfiðleikum sínum með því að
beinlínis horfast í augu við vandann.
Reglulega fer hann ofan í námu sem
er í eigu bróður hans og dvelur þar
í stutta stund í einu. Hann segir að
þetta hafi hjálpað honum og martröð-
unum hafi fækkað. Lyf og meðferð hjá
sálfræðingi hafa einnig gert sitt gagn.
„Við erum á lífi, allir 33“
Sagan af námuverkamönnunum
þrjátíu og þremur var ein stærsta frétt
ársins 2010. Í ágúst það ár hrundi hluti
San Jose-námunnar sem gerði það
að verkum að námuverkamennirnir
sem þar voru að störfum festust á 700
metra dýpri. Ekkert heyrðist frá þeim
í sautján daga og töldu flestir að þeir
væru löngu látnir. Borað var ofan í
jörðina, upp á von og óvon, en þegar
borinn kom aftur upp á yfirborðið var
þar að finna miða sem á stóð: „Við
erum á lífi, allir 33.“
Undirbúningur björgunaraðgerð-
anna var langur og strangur og þurftu
námuverkamennirnir að hafast við
í sjö vikur til viðbótar neðanjarðar
áður en þeim var loksins bjargað.
Engar bætur greiddar
Í umfjöllun BBC kemur fram að
margir hafi búist við því að björt
framtíð biði námuverkamannanna –
það er jú einstakt að festast í námu
í 69 daga og lifa til að segja söguna.
Raunin er hins vegar önnur og glíma
námuverkamennirnir flestir enn við
andleg veikindi og þurfa á reglulegri
aðstoð sálfræðinga að halda. Margir
eru atvinnulausir á meðan aðrir fá
fyrir salti í grautinn með hlutastörf-
um. Einn dvelur á geðdeild í höfuð-
borginni Santiago og að minnsta
kosti tveir glíma við áfengis- og vímu-
efnafíkn.
Enn hefur enginn þeirra fengið
bætur frá námufyrirtækinu sem rak
San Jose-námuna.
Heltekinn af þunglyndi
„Fyrstu tvö árin eftir slysið leið mér
ágætlega,“ segir Carlos Barrios, sem
var 27 ára þegar slysið varð. Hann
segir að hann hafi ekki fundið fyrir
neinum sársauka, hvorki líkamlega
né andlega, hann hafi spilað fótbolta
og verið í vinnu í koparnámu hjá einu
stærsta námufyrirtæki Chile. Hann
lýsir því í samtali við BBC að skyndi-
lega hafi í raun allt orðið svart og
hann orðið heltekinn af þunglyndi.
Barrios segir að hann hafi leitað
til geðlæknis vegna veikinda sinna en
sá hafi aðeins gefið honum töflur. „Ég
varð háður þeim og er enn að taka
þær,“ segir hann og bætir við hann fái
martraðir og sé mjög myrkfælinn.
Smeyk námufyrirtæki
Omar Reygadas var einn af aldursfor-
setum hópsins sem festist í námunni.
Hann hefur verið án starfs í tæplega
ár og segir að frægðin, ef svo má segja,
hafi unnið gegn verkamönnunum.
„Eftir slysið urðum við allir þekktir.
Við þekkjum fjölmiðlamenn og fólk
í æðstu stjórnstigum landsins,“ segir
hann og bætir við að af þeim sökum
séu námufyrirtæki smeyk við að veita
þeim vinnu. Þeir eigi auðvelt um vik
að láta vita ef til dæmis öryggismálum
í námunum sé ábótavant.
Ekki grundvöllur fyrir lögsókn
Í ágúst í fyrra lauk saksóknari rann-
sókn á námuslysinu og komst að
þeirri niðurstöðu að enginn grund-
völlur væri fyrir lögsókn gegn eigend-
um San Jose-námunnar. Námu-
verkamennirnir voru ósáttir við þá
niðurstöðu en einnig gætti óánægju
hjá yfirvöldum í Chile. Námuvinnslu-
ráðherra Chile, Laurence Golborne,
sagði að niðurstaðan væri „ótrúleg“
og benti á að til dæmis hafi aðeins ein
útgönguleið verið úr námunni. Lög-
um samkvæmt þurfa þær að vera að
lágmarki tvær. Flestir námuverka-
mannanna hafa síðan höfðað einka-
mál á hendur fyrirtækinu, en nokkur
ár gætu liðið þar til niðurstaða fæst í
þau mál.
Álitamál fyrir dómstóla
Alex Vega segist hafa misst alla trú
á stjórnvöldum og að þau hafi ekki
heiðrað loforð sem þau hafi gefið.
Hann bendir á að námuverka-
mönnunum hafi verið lofað vegleg-
um lífeyrisgreiðslum eftir atvikið, en
þegar á botninn var hvolft hafi að-
eins þeir fjórtán elstu í hópnum feng-
ið slíkar greiðslur. „Þeir lofuðu að
borga fyrir okkur tannlæknakostnað
því mengað vatnið sem við drukkum
skemmdi tennurnar í okkur. Það hef-
ur ekki staðist,“ segir hann.
Yfirvöld segja að takmörk séu fyrir
því hvað hægt sé að greiða. Álitamál
þurfi að fara fyrir dómstóla.
Hollywood bankar upp á
Eftir nokkra mánuði mun kvik-
myndatökulið frá Hollywood koma
til Chile til að hefja tökur á bíó-
mynd um námuslysið. Meðal leikara
í myndinni eru stórleikararnir
Antonio Banderas, Martin Sheen
og Juliette Binoche. Framleiðslu-
fyrirtækið hefur lofað að námu-
verkamennirnir fái hluta af tekjum
myndarinnar. Hvort það verði til að
létta mönnunum lundina skal ósagt
látið. Staðreyndin er sú að þremur
árum eftir atvikið glíma námu-
mennirnir enn við eftirmála slyssins
í San Jose-námunni. n
Einar Þór Sigurðsson
einar@dv.is
Fær martraðir Alex Vega sést hér með tveimur af þremur börnum sínum. Hann vaknar á
næturnar með martraðir en hefur reynt að horfast í augu við óttann.
Leið ágætlega Carlos Barrios
segir að fyrstu tvö árin eftir slysið
hafi verið bærileg. Síðan hafi hann
upplifað mikið þunglyndi.
„Þeir lofuðu að
borga fyrir okkur
tannlæknakostnað því
mengað vatnið sem
við drukkum skemmdi
tennurnar í okkur.
Vaca í haldi í
Bandaríkjunum
Edgar Vaca, fyrrverandi
lögreglustjóri í Ekvador,
hefur verið handtekinn í
Bandaríkjunum. Vaca hef-
ur verið ákærður í heimalandi
sínu vegna mannréttindabrota
á níunda áratug liðinnar aldar.
Er hann meðal annars sakaður
um að hafa fyrirskipað mann-
rán og pyntingar. Alþjóðleg
handtökuskipun hafði verið
gefin út á hendur honum og var
Vaca handtekinn í höfuðborg
Bandaríkjanna, Washington.
Innanríkisráðuneyti Ekvador
hefur gefið það út að Vaca verði
framseldur til Ekvadors þar
sem hans bíði réttarhöld.
Dauða-
dæmdur fangi
tekinn af lífi
Herbert Smulls, 56 ára Banda-
ríkjamaður á dauðadeild í
Missouri, var tekinn af lífi á
miðvikudag, 21 ári eftir að hafa
verið dæmdur til dauða fyr-
ir morð. Smulls var sakfelldur
í desember 1992 fyrir morð á
eiganda skartgripaverslunar.
Lögmenn Smulls reyndu
fram á síðustu stundu að fá
dauðadómnum breytt í lífstíðar-
fangelsi, en án árangurs. Smulls
varð þar með sjötti fanginn til
að vera tekinn af lífi í Bandaríkj-
unum á þessu ári og sá þriðji í
Missouri frá því í nóvember.
Leitað að
raðmorðingja
Lögreglan í Afríkuríkinu
Tansaníu leitar að
raðmorðingja sem talinn er
hafa skotið átta manns til
bana í skjóli nætur undan-
farna daga. Fyrsta morðið var
framið aðfaranótt sunnudags
í bænum Tarime og nágrenni
hans. Í öll skiptin voru pen-
ingar og farsímar teknir af fórn-
arlömbunum. Að sögn breska
ríkisútvarpsins, BBC, hefur
mikill ótti gripið um sig meðal
bæjarbúa sem halda sig nú að
mestu innandyra yfir nóttina af
ótta við morðingjann.