Gripla - 20.12.2011, Page 7
Gripla XXII (2011): 7–40.
ÞÓ RUNN SIGURÐARDÓTTIR
UPP SKÝST LÖNGU GLEYMT
LISTAVERK
Óþekkt kvæði eftir Hallgrím Pétursson
„ÍSLENZK HANDRITASÖFN hafa enn ekki verið könnuð til neinnar hlítar,
þar brestur mikið á. Og þó þekkja menn þau svo vel að allar vonir mega
heita þrotnar að upp muni skjóta áður ókunnum eða löngu gleymdum
listaverkum.“ Þetta segir Jón Helgason prófessor í ritgerð um íslensk
handrit í British Museum (nú British Library) sem birtist í greinasafninu
Ritgerðakornum og ræðustúfum árið 1959 (bls. 127). Þessi staðhæfing Jóns
á enn við, íslensk handritasöfn hafa ekki verið full könnuð, hvorki innan-
lands né utan. Og einmitt þess vegna getur von handrita fræðingsins um að
finna áður ókunnugt listaverk ræst, eins og kvæðið sem hér verður greint
frá er til vitnis um.1 Kvæðið er erfiljóð um Vigfús Gíslason (1608–1647),
sýslumann á Stórólfs hvoli á Rangárvöllum, eignað Hallgrími Péturssyni
í handriti á Ihreska handskrifts samlingen í Uppsalaháskóla, Ihre 77 (bls.
101). Það hefur ekki varðveist víðar í handritum, svo kunnugt sé, ekki verið
prentað og hvergi fjallað um það í bókmenntasöguritum.
Hallgrímur er eitt þekktasta skáld þjóðarinnar frá síðari öldum og
varla nokkur Íslend ingur hefur farið þess varhluta að hlýða á eitthvert
kvæða hans, Passíu sálmana á föstunni í Ríkis útvarpinu, a. m. k. nokkur
erindi úr andlátssálminum Allt eins og blómstrið eina við jarðar farir eða að
læra heilræðavísurnar, Ungum er það allra best, upp úr skóla ljóðunum, svo
nokkuð sé nefnt. Það er því sérlega ánægjulegt að draga fram í dagsljósið
kvæði eftir hið ástsæla þjóð skáld, sem hefur verið gleymt um aldir, en þó
geymt í einu handriti í litlu sérsafni í Uppsala háskóla í Svíþjóð. Erfiljóðið
1 Rannsókn þessi er hluti af verkefninu „Menningarlegt og félagslegt hlutverk íslenskra
kvæða- og sálmahandrita eftir siðskipti“ sem er styrkt af Rannsóknarsjóði RANNÍS. Ég
þakka tveimur ónafngreindum yfirlesurum Griplu kærlega fyrir góðan yfirlestur og gagn-
legar ábendingar.