Gripla - 20.12.2011, Qupperneq 26
GRIPLA26
Jón Jónsson frá Rúgsstöðum (1636–1679) í Eyjafirði var á leið til
Hafnar árið 1658 þegar skipið sem hann sigldi með var hertekið af Svíum,
sem áttu þá í stríði við Dani, einu sinni sem oftar.30 Jón mun hafa haft
dálítið bókasafn með sér, m. a. handrit af fornaldarsögum, sem virðist hafa
vakið áhuga sænskra fornfræðinga. Honum var fljótlega komið í nám í
latínu skólanum í Visingsö en haustið 1662 er hann innritaður í háskólann
í Uppsölum. Jón varð fljótlega eftir komuna til Uppsala aðstoðarmaður
Olofs Vereliusar (1618–1682), prófessors í fornfræðum, þess sem fyrstur
gaf út fornaldarsögur, vafalaust með hjálp Jóns Rúg manns. Jón starfaði
sem fornfræðingur og þýðandi við Collegium Antiqvitatum í Uppsöl um
frá því það var stofnað árið 1667 og til dauða dags 1679.
Samkvæmt fyrsta ævisöguritara Rúgmanns, Nils Hufvedson Dal
(1724), fór hann til Íslands 1661 til þess að safna handritum fyrir hönd
sænskra fornfræðinga og aftur árið 1665. Hvort tveggja er rangt, eins og
síðari fræðimenn hafa sýnt fram á (Schück 1932, 199–216). Jón fór aldrei til
Íslands á vegum Svía og hefur því ekki skrifað kvæðin upp á Íslandi. Aftur á
móti er vitað að Jón Rúgmann dvaldi um tíma árið 1665 í Kaupmannahöfn
við að skrifa upp forna texta fyrir Olof Verelius prófessor. Upplýsingar um
þessa dvöl má finna í skjalasafni Uppsala háskóla (Schück 1932, 205 o. áfr.)
en einnig í íslenskum heimildum og af dagsetn ingum í handritinu sjálfu.
Jón Ólafsson úr Grunnavík minnist til dæmis á það í bókmennta sögu
sinni í tengslum við uppskrift Jóns Rúgmanns á Ólafs sögu Tryggvasonar:
„Assessor Árni bevísar í einni sinni nota, að Jón Rúgmann hafi ei skrifað
þessa Ólafs sögu, fyrr en hann var í Kaupenhafn 1665 …“ (Add 3 fol., 98r,
á spássíu).31 Í handritinu Ihre 77 eru einmitt skrifuð upp kvæði og vísur
úr Ólafs sögu Tryggvasonar, sem Jón Rúgmann hefur gert í Höfn. Undir
uppskrift Rúgmanns af Ólafsdrápu Hallfreðar vandræðaskálds í Ihre 77,
sem hann skrifaði eftir handriti í eigu Vilhelms Worms (1633–1704), síðar
varðveitt undir safnmark inu AM 310 4to32 (Grape 1949 II, 78), stendur:
30 Æviatriði Jóns Rúgmanns eru fengin úr Gödel 1897, Schück 1932 og Nilsson 1954 nema
annað sé tekið fram. Ýmislegt sem er í Gödel 1897 er leiðrétt í Schück 1932.
31 Olof Verelius gaf út hluta af Ólafs sögu Tryggvasonar árið 1665 og hafa uppskriftir Jóns
Rúgmanns af sög unni í Kaupmannahöfn trúlega tengst því verki.
32 Handritið fékk Vilhelm (Willum) Worm í arf frá föður sínum Ole Worm (1588–1654)
prófessor en sonur hins fyrrnefnda, Christian Worm biskup (1672–1737), afhenti Árna
Magnússyni handritið (sbr. handrit.is). Handritið hefur verið í eigu Vilhelms þegar Jón
Rúgmann skrifaði upp eftir því í Kaupmannahöfn 1665.