Gripla - 20.12.2011, Síða 122
GRIPLA122
og slíkt getur oft orðið, ef ferðamaðurinn hindrast, þá er það jafn mikið
óhapp, sem þá er rá brotnar.«“
Í útgáfu Finns af Eddukvæðunum sama ár (1888, 15), tók hann þessa
leiðréttingu upp, trúerat, en í athugasemdum aftast er ritháttur handrits
tilgreindur. Í útgáfu Finns af Sæmundar-Eddu (1905, 36) stendur: trúira,
án athugasemda. Þar tók Finnur einnig upp orðmyndina ráar, og var sá
ritháttur notaður í útgáfum hans og nokkrum öðrum fram yfir 1950.
Eiríkur Magnússon (1888, 334) fjallar um nokkur atriði í Málshátta-
kvæðinu, m. a. málsháttinn: Skips láta menn skammar rár. Hann telur
ósennilegt að átt sé við legurúm í skipi, eins og Guðbrandur Vigfússon
gerði ráð fyrir, en segir svo: „Hins vegar sé ég góða fyrirmynd að málshætt-
inum í því tilviki ‒ sem eflaust kom ekki sjaldan fyrir ‒ að skipbrotsmaður
barðist fyrir lífi sínu skammt frá landi með því að halda sér í skips rá. Hvað
var þá eðlilegra en að hann sjálfur, eða einhver sem horfði áhyggjufullur á,
myndi tjá tilfinningar sínar með neyðarópinu »Allt of stutt er skipsráin«?
Ég get einnig bætt því hér við, að setningin: »Hverf er haustgríma«, sem
í Hávamálum kemur í beinu framhaldi af málshættinum, er eflaust ekki
mælt af munni landbúa, heldur þvert á móti kall frá hafinu, sem vísar til
lífsháskans sem menn fundu til í glímunni við ótrygg náttúruöfl á dimmum
haustnóttum.“ (Þýðing mín). ‒ Þó að þessi túlkun Eiríks sé ekki sann-
færandi, má benda á að til er málsháttur sem felur í sér svipaða hugsun:
Mörgum flotar ein ár til lands (Finnur Jónsson 1920, 5).
Sem hliðstæðu við fyrstu línuna benda Ferdinand Detter og Richard
Heinzel (1903, 110) á málsháttinn: Nóttu verðr feginn hinn nauðþreytti,
ef hann hvíldar von á (Guðmundur Jónsson 1830, 240). Um þriðju lín-
una: Skammar ro skips rár, segja þeir „að þetta geti ómögulega verið sagt
um langar rár [Segelstangen] (sbr. Helgakviðu Hundingsbana I, 48 [nú
49]), heldur aðeins um þröng skiprúm [Schiffsräumen], jafnvel hin stuttu
rúmstæði [Schiffskojen = kojur], sem þvinguðu menn til að sofa sam-
ankrepptir.“ Um þetta vísa þeir til Guðbrands Vigfússonar (1874). Þeir
benda einnig á málsháttinn: Skömm er skipmanna reiði (HSch. 1847).
Björn M. Ólsen (1915, 75‒78) segir um 74. erindi Hávamála, að sam-
hengið verði bæði einfalt og skýrt ef menn hugsa sér að verið sé að fjalla um
siglingar innan skerja meðfram ströndum Noregs. Þar „höfðu menn ávallt
þann hátt á að leggja að landi þegar myrkrið skall á og héldu ferðinni fyrst
áfram þegar birti daginn eftir. Það hefði einnig verið allt of áhættusamt að