Gripla - 20.12.2011, Síða 126
GRIPLA126
Finnur Jónsson (1924, 80‒81 og 1932, 33) telur, eins og áður, þetta vera
leifar af tveimur vísum, 3+4 línur, og vanti helminginn af þeirri fyrri og
tvær fyrstu línurnar af þeirri seinni. Vísubrotin eigi ekki heima á þessum
stað, eins og Finnur Magnússon benti á. Hann telur óljóst hvernig skilja
beri línuna skammar ‘ro skips ráar, nema að þar sé að sjálfsögðu ekki átt við
neitt annað en ‘skips-rár’. „Merkingin gæti verið: ‘Nestið er (yfirleitt) of
lítið, á sama hátt og skips rár eru stuttar’, en rökvísin er ekki góð.“ ‒ Hann
getur þess að í fyrri útgáfum sínum hafi hann lagt til leiðréttinguna trúirat
(trúir ekki) í annarri línu, en þó aldrei talið hana fullnægjandi. Því sé best
að láta textann standa óbreyttan og viðurkenna að hann sé þokukenndur.
Um þriðju línuna: Skammar eru skips rár, vitna Hugo Gering (d. 1925)
og Barend Sijmons (1927, 112‒113) fyrst til BMÓ og Eiríks Magnússonar,
en segja svo, að réttara sé þó líklega, sbr. Detter – Heinzel og Heusler, að
með rá sé átt við ‘skiprúm’ [Schiffswinkel], rúm þar sem menn sváfu sam-
ankrepptir. „Þess vegna gátu sjómenn einnig fagnað nóttunni þegar þeir
gátu teygt úr sér og notið þæginda á landi.“ (Þýðing mín).
Lee M. Hollander (1928, 29) hefur þriðju línuna innan hornklofa og
þýðir hana orðrétt: „[Short are the yards of a ship:]“ Neðanmáls segir: „E.
t. v.: að gera stuttar o. s. frv. ‒ þ. e., eins og sagt er: Rifið seglið!“ (þýðing
mín). Í annarri útgáfu, endurskoðaðri (1962, endurpr. 1986, 25) hefur hann
fallið frá þessu og þýðir í stíl við Guðbrand Vigfússon: „close are the ship’s
quarters.“
David A. H. Evans (1986, 110‒111) setur ekki fram nýja skýringu á
vísunni, en rekur skilmerkilega skoðanir annarra fræðimanna. Hann telur
ósennilegt að skips rár séu ‘legurúm’, merkingin geti vart verið önnur en
‘seglrár’. Hann hallast helst að skilningi Falks um að stutt rá sé mikilvæg
varúðarráðstöfun, en telur ágiskun Eiríks Magnússonar ekki óaðlaðandi af
svipuðum ástæðum.
Hermann Pálsson (1991, 70) skýrir fyrri hluta vísunnar svo: „Sá fagnar
nóttu sem treystir nestinu (og þarf því ekki að sníkja sér mat á gististað).
Seglrár eru stuttar (og því eru segl lítil og skip hægfara).“ Hermann vísar
í bók sína Heim Hávamála (1990), en þar eru nánast sömu skýringar og
hér eru teknar upp. Hermann tók málið síðar til nýrrar umfjöllunar (1999,
201‒202) og skýrir þar fyrri hluta vísunnar svo: „Ferðalangur með nógan
mat í mal hlakkar til hvíldar að kveldi, enda lítil hætta á að hann vakni af
hungur verkjum um nóttina. Heusler . . . dregur athygli að málshætti . . .