Gripla - 20.12.2011, Page 127
127SKAMMAR ERU SKIPS RÁR
sem bregður nokkru ljósi yfir þetta: Sá biður hlæjandi húsa er matinn hefir
í sekknum. Slíkur brautingi þarf ekki á annarri gestrisni en húsaskjóli að
halda. . . . Skip skríður ekki hratt ef rár eru stuttar, því að segl verða þá lítil.
Til gamans skal nefna tvíræðan málshátt frá síðari öldum þar sem orðunum
reiði kvk.: „heift“ og reiði kk.: „skipsreiði“ virðist vera blandað saman:
Skömm er skipsmanna reiði (HSch. BVÓH).“9
Bragi Halldórsson o. fl. (2008, 46) segja um fyrri hluta vísunnar:
„Samhengið í fyrstu línunum . . . er óljóst, en þó má skýra svo: Sá verður feg-
inn nóttinni sem treystir á nesti sitt því að þá getur hann matast (og hvílst).
Skip með skammar rár siglir hægt og síðan voru rár notaðar þegar tjaldað var
yfir skipið (en ef rár eru skammar – hvar er þá næturskjól að fá?).“
Frekari umfjöllun
Eftir þessa yfirferð er ég þeirrar skoðunar að Hjalmar Falk hafi komist
næst hinu rétta, og verður hér reynt að bæta nokkru við ofangreindar skýr-
ingar. Fyrst má benda á atriði sem mælir gegn þeim skilningi Björns M.
Ólsens og Hjalmars Falks, að átt sé við siglingar með ströndum Noregs,
þar sem menn fóru í land að kveldi. Í 74. erindi Hávamála er gert er ráð
fyrir siglingu sem getur tekið fimm daga eða jafnvel mánuð. Það bendir
eindregið til úthafssiglinga, jafnvel frá Noregi til Íslands eða Grænlands.
Lítum næst á Málsháttakvæðið, 12. erindi. Þar eiga línurnar oft saman
tvær eða fleiri, og gæti því fyrsta línan tengst þeirri næstu.
Skips láta menn skammar rár,
skatna þykir hugurinn grár.
Fyrri línan er eflaust tilvitnun í Hávamál, og miðlar skilningi skáldsins
á málshættinum. Þar segir að menn láti skips rár vera stuttar, sem getur
falið það í sér að það þyki ráðlegt. En hver er skýringin á því? Eins og fram
kemur hjá Hjalmari Falk hafa á veðrasömum slóðum meðfram ströndum
Noregs og Færeyja tíðkast segl sem voru tiltölulega mjó að ofan (með
skammar rár) en breið að neðan. Það dregur úr hættu á að ráin brotni í
9 Í heimildunum sem Hermann vísar til hljóða málshættirnir svo: Sá biður hlæjandi húsa sem
matinn hefur í malnum, og Skömm (stutt) er skipmanna reiði. SPÍ.