Gripla - 20.12.2011, Page 135
135
HEIMIR PÁLSSON
UPPSALAEDDA, DG 11 4to
Handrit og efnisskipan1
ÞEGAR RÆTT ER UM Uppsalaeddu, þá gerð Snorra-Eddu sem varðveitt er
í handritinu DG 11 4to í háskólabókasafninu í Uppsölum, snýst umræðan
oftast um sjálfan textann og samband hans við aðrar gerðir verksins.2
Ágætt yfirlit yfir textafræðilegar rannsóknir fyrri tíðar er að fá hjá Sverri
Tómassyni í ritgerðinni Nýsköpun eða endurtekning (1996, 2—5) og skal
ekki endurtekið hér. Minnt skal þó á að Edda er kennslubók og það er í
eðli slíkra verka að vera í stöðugri endurvinnslu („work in progress“) og
því er þess varla að vænta að auðvelt sé að setja upp eina ættarskrá fyrir öll
miðaldahandritin. Um þetta kemst Sverrir mjög skynsamlega að orði:
[…] af athugunum fræðimanna er ljóst að textahefð verksins virð-
ist vera af tveim rótum runnin og vandséð hvort rekja megi þær
til eins sameiginlegs upphafs, verks Snorra Sturlusonar eða hvort
það verk hefur verið frá öndverðu ein heild. Niðurskipan efnis í
höfuðhandritunum er mismunandi og gæti verið vísbending um að
ritstjórar í byrjun 14. aldar hafi sett verkið saman eftir tveimur eða
fleiri handritum. (Sverrir Tómasson 1996, 3).
1 Guðvarði Má Gunnlaugssyni, Vésteini Ólasyni og Veturliða Óskarssyni á ég þakkir að
gjalda fyrir samræður og lestur. Ónafngreindum ritrýni Griplu skal einnig þakkað fyrir
góðar ábendingar, sem flestar hafa skilað endurbótum.
2 Snorra-Edda er varðveitt öll eða að hluta til í sex skinnhandritum frá miðöldum og einu
pappírshandriti sem talið er afrit af 13. aldar handriti. Hér er þeim raðað í stafrófsröð, sem
á rætur sínar að rekja einkum til Finns Jónssonar en aðrir hafa tekið eftir, og getið um
mikilvægustu textaútgáfur: A AM 748 I b 4to; Jón Sigurðsson et al. 1852:397–494. – B
AM 757 4to; Jón Sigurðsson et al. 1852:501–572. – C AM 748 II 4to. Jón Sigurðsson et al.
1852:573–627.– R Regius. GKS 2367 4to; Faulkes 1 og 2 1998, 1999 og 2005.– T Trajectinus.
Utrecht 1374; van Eeden 1913 og Árni Björnsson 1975. – U Upsaliensis. DG 11 4to; Grape
et al. 1977. – W Wormianus. AM 242 fol.; Finnur Jónsson 1924. – Sjöunda handritið er
aðeins varðveitt í brotum, það er fimmtándu aldar afrit af Ormsbók og hefur skrásetning-
arnúmer AM 756 4to (sjá m. a. Finn Jónsson 1931: xvii). Eins og síðar verður drepið á er
einnig ástæða til að nefna AM 257 8vo þar sem það er afrit af DG 11 4to.
Gripla XXII (2011): 135–159.