Gripla - 20.12.2011, Page 147
147
er eins og ritstjóri vakni upp: Nú verða margir nefndir til sögunnar,
namedropping hefst, og þá er eins gott að geta gert grein fyrir fólki. En
samhliða þessu bendir Skáldatal á að það eru ýmis góð skáld í Sturlungaætt,
og höfundurinn, Snorri Sturluson, kom víða við þá sögu.
Hér er reyndar ástæða til að benda á að í DG 11 eru á bls. 45 taldir fjórir
jarlar, Hákon jarl Eiríksson, Ormr jarl Eilífsson, Hákon jarl Ívarsson og
Sigurðr jarl Hávarsson og á bls. 46 bætast við Eiríkr jarl Sigurðarson og
Philipus jarl Birgisson. En þeir eiga sér engin skáld. Hið sama verður
uppi á teningnum ef litið er í Skáldatal Kringlu (sbr. Jón Sigurðsson o.fl.
1880–1887, 257–258). Kann þar reyndar að bætast við sjöundi skáldlausi
jarlinn. Á þessu sýnist aðeins vera ein einföld skýring: Að stofni til er þetta
ekki skáldatal heldur höfðingjatal. Til hefur verið listi yfir konunga og aðra
fyrirmenn. Einhver hefur notað þann lista til að búa til skáldatal, en láðst
að fella út þá höfðingja sem ekki áttu nein skáld.
Hlutverk Ættartölu Sturlunga og Lögsögumannatals eru auðséð og þar
hefur Krömmelbein ljóslega rétt fyrir sér. En þá verður líka að horfa til
aðstæðna. Skrifari DG 11 4to hefur að því er virðist fengið það hlutverk að
afrita handrit sem varðveist hafa hjá Sturlungum, kannski meira að segja
komið úr búi Snorra sjálfs. Að því verður nánar vikið í því sem hér fer á
eftir.
Liber secundus
Þegar lokið er kennarahandbókinni er komið að nemendabókinni. Hún
inniheldur það sem studiosus á að tileinka sér. Það mætti sýna í efnisyfirliti
með þessum hætti:
g. Skáldskaparmál (orðaforði skáldskaparins, einkum kenningar og heiti
– Grape o.fl. 1977, 51–87).
h. Háttalykillinn (Önnur málfræðiritgerðin; hljóðfræðin – Grape o.fl.
1977, 88–92).
i. Vísnaskrá Háttatals (Grape o.fl. 1977, 93.1–22).
j. Háttatal sem Snorri kvað (kvæðið sjálft og skýringar, erindi 1–56 –
Grape o.fl. 1977, 94–109).
UPPSALAEDDA, DG 11 4to