Gripla - 20.12.2011, Page 153
153
Ráðgátan Háttatal
Eins og áður er að vikið er óráðin gáta hvers vegna aðeins voru skrifuð 56
erindi af Háttatali í DG 11 4to. Engar líkur eru til að skrifarinn hafi ætlað
sér meira (hann hefði valið stærra kver). Það bendir ótvírætt til að ekki
hafi verið meira í forriti hans, því ekki er vegur að fallast á skýringu Finns
Jónssonar að hann hafi ekki haft nóg úthald: „Og hermed var skriveren
endelig definitivt færdig.“ (1931, xxx).
Að sjálfsögðu má gera því skóna að vantað hafi aftan á forrit DG-
skrifarans. Það væri bæði tæk og líkleg skýring og fær stuðning af því að
ritvillum fjölgar þegar líður að lokum kvæðistextans. Kynni það að benda
til að skemmdir hafi verið í forriti. Hins vegar sýnist ljóst af Vísnaskrá að
skrifari vissi að til voru önnur handrit og þess vegna hefði honum verið í
lófa lagið að afla niðurlagsins. Fleiri skýringa kann að vera völ.
Það má kalla ígildi trúarjátningar í norrænum fræðum að Snorri hafi
ort Háttatal á árunum 1220–1225, þ. e. a. s. sem fyrst eftir heimkomu
sína úr fyrri Noregsferðinni, og flestir hafa fallist á tímasetningu Konráðs
Gíslasonar (1869) og talið kvæðið ort 1222–1223. Bent hefur verið á að í
erindunum 63–66 sé minnst á viðureign Ribbunga og herflokks Skúla.
Þessi átök áttu sér stað eftir að Snorri fór heim og hann hefur naumast
getað haft af þeim spurnir fyrr en sumarið 1222.23 Fróðlegt er líka að hugsa
um sögu Páls dróttseta (sjá t. d. Faulkes 1999, xii), en falls hans er getið
í erindi 32 í Konungsbók, þar sem segir „Páll varð und fet falla / fram
þrábarni arnar“ (Faulkes 1999, 17), en í DG 11 4to er þessi vísufjórðungur
öðruvísi: „ valr varþ vnd ot alla / ramm þꝛabarni arnar “ (Grape o.fl.
1977, 104). Hér er sem sagt ekki minnst á Pál, aðeins talað um mannfall.
Vitanlega gæti hvort sem væri verið lagfæring, en heldur virðist ósennilegra
að mannsnafn sé fellt niður við endurskoðun. Það gerir vitaskuld frásögn-
ina trúverðugri ef hægt er að nefna til sögu einstaklinga sem hafa fallið.
Háttatal er 102 erindi og í hinu hundraðasta hælir skáldið sér af að
hafa talið „tírætt hundrað“. Það nefnir tírætt kvæði hins vegar ekki sem
upprunalega áætlun, og sannast sagna er ekkert sem bendir til að kvæðið
hafi verið hugsað tírætt frá öndverðu. Ef horft er á það sem tveggja höfð-
ingja flokk (drápa er það ekki) hallar mjög á, því kalla mætti að Skúli eigi
verulegan meirihluta erinda. Anthony Faulkes hefur lýst þessu ágætlega:
23 Sjá ágæta greinargerð hjá Faulkes 1999:xii.
UPPSALAEDDA, DG 11 4to