Gripla - 20.12.2011, Qupperneq 162
GRIPLA162
biskup, einmitt eftir þessu handriti.5 Hún var eitt þeirra handrita Árna
Magnússonar sem björguðust úr brunanum 1728. Frumritið, sem Árni
hafði því miður skilað aftur, varð hins vegar eldinum að bráð.
Þar sem Árni lýsir Resensbók nefnir hann tvö þekkt rit sem hún hafði
að geyma, önnur en Landnámu, þ. e. Konungsskuggsjá og Þorvalds þátt
víðförla.6 Þegar hann vitnar í Resensbók um einstök atriði kemur við sögu
fjórði textinn, viðauki Landnámabókar (eða, af því Árni skrifar oftast á
latínu: „Appendix Libri originum Islandicarum“). Oftast tekur Árni fram
að það sé viðauki Landnámu „á skinni“ (membraneum) sem hann greinir
þannig frá pappírshandritum Landnámu sem til voru í Kaupmannahöfn,
m. a. í safni Resens,7 og um leið frá prentaðri Landnámabók sem kom út
í Skálholti 1688.
Tilvísanir af þessu tagi eru meðal annars nokkrar í því eina riti sem kalla
má að Árni hafi fullsamið til útgáfu, þ. e. samantekt hans um æfi Sæmundar
fróða.8 Árni hefur lokið ritgerð sinni 1690, en hún birtist ekki fyrr en
löngu eftir hans dag, meðal inngangsefnis í fræðilegri útgáfu eddukvæða í
Kaupmannahöfn 1787.9 Hafði Jón Eiríksson búið texta Árna til prentunar.
5 Jakob Benediktsson, „Inngangur,“ xi.
6 Ólafur Halldórsson, „Kristni þættir,“ Íslenzk fornrit XV. (Reykjavík: Hið íslenzka
fornritafélag, 2003), clxv–clxvii. Ólafur bendir á líkur til þess að einmitt frá Resensbók
sé runnið varðveitt handrit af Þorvaldsþætti sérstökum. Kemur því varla til greina (sbr. þó
Sveinbjörn Rafnsson, „Vatnsdæla sögur og Kristni sögur,“ Saga 43, nr. 2 (2005): 65, sbr.
sami, Sögugerð Landnámabókar (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2001), 23) að
undir því nafni dyljist Kristnisaga sjálf, þótt hún hefjist vissulega á ágripi af Þorvaldsþætti.
Enda hlýtur Árni Magnússon, a. m. k. allt frá því Kristnisaga kom út á prenti 1688, að hafa
litið á hana sem sérstakt rit með sérstöku heiti.
7 Jakob Benediktsson, „Inngangur,“ xix nm. Resensbók var eina skinnhandrit Landnámu sem
Árni þekkti þar til hann komst í tæri við rytjurnar af fyrsta hluta Hauksbókar, einhvern
tíma á árunum 1695–1701 (Jón Helgason, „Introduction,“ Hauksbók. The Arna-Magnæan
Manuscripts 371, 4to, 544, 4to and 675, 4to (Kaupmannahöfn: Munksgaard, 1960), xxviii).
8 Þetta rit birtist, í íslenskri þýðingu Gottskálks Jenssonar ásamt inngangi hans og skýr-
ingum, sem Árni Magnússon, „‚Ævi Sæmundar fróða‘ á latínu eftir Árna Magnússon,“ Í
garði Sæmundar fróða. Fyrirlestrar frá ráðstefnu í Þjóðminjasafni 20. maí 2006 (Reykjavík:
Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2008), 135–170. Ég styðst við skýringar Gottskálks,
bæði um ritið sjálft og um fyrri útgáfur þess. Meðal annars bendir hann (bls. 143 nm.) á þá
kenningu Jóns Eiríkssonar sem brátt verður lýst.
9 „Vita Sæmundi multiscii, vulgo froda, au[c]tore Arna Magnæo, annotationibus aucta,“ Edda
Sæmundar hinns fróda, I. bindi (Kaupmannahöfn: legat Árna Magnússonar og Gyldendal,
1787).