Gripla - 20.12.2011, Side 166
GRIPLA166
þá samfelldu Íslandssögu Sturlu Þórðarsonar sem Kristnisögu sé ætlað að
vera hluti af.
Niðurstaða Jóns hefur síðan verið lögð til grundvallar næsta eindregið
þegar um Kristnisögu er fjallað. Undantekning frá því var til skamms
tíma ekki önnur en smágrein eftir Ólaf Halldórsson, „Rómversk tala
af týndu blaði í Hauksbók“,19 birt upphaflega í óformlegu afmælisriti
1981. Þó greinin sé stutt rúmar hún fleiri athuganir en þá sem hún dregur
heiti af. Auk annars ræðir Ólafur kenningu Jóns Jóhannessonar um
Landnámuviðaukann í Resensbók og dregur fram úr óprentuðum skrifum
Árna Magnússonar tvö dæmi í viðbót um tilvísanir hans til þessa texta. Í
báðum ber Árni orðalag viðaukans saman við Kristnisögu (hér bæði við
prentuðu útgáfuna og handrit Jóns Erlendssonar, en það var í fórum Árna
frá 1704), segir um annan staðinn að það sé orðrétt eins, en á hinum bendir
Árni á að skrifari Resensbókar hafi af vangá fellt niður nafn Ara fróða
þar sem Kristnisaga sýni að það hafi átt heima. En um kenningu Jóns
Jóhannessonar segir Ólafur:20
Þeir sem telja tilvísanir í samantektum Árna Magnússonar til við-
auka við Landnámu á skinnbók í bókasafni Resens sanna að Kristni
saga hafi fylgt á eftir Sturlubók Landnámu í því handriti verða að
finna skýringu á því, hvers vegna Árni nefnir þessa heimild ævinlega
Appendix, en ekki Kristni sögu, eða Historia Christianæ Religionis in
Islandiam introductæ, eins og hann nefnir þetta ritverk þar sem hann
veit um það á öðrum bókum. Ég ætla ekki að koma þar til hjálpar
…
Þessari áskorun Ólafs hafa fræðimenn lítt orðið við. Af helstu rannsak-
endum Kristnisögu á síðustu árum má nefna Sveinbjörn Rafnsson21 og
Sigurgeir Steingrímsson,22 sem báðir vísa til greinar Ólafs vegna týnda
blaðsins úr Hauksbók en leiða hjá sér efasemdir hans um Kristnisögu í
Resensbók; þess í stað ganga þeir hiklaust út frá ályktun Jóns Jóhannes-
sonar.
19 Ólafur Halldórsson, „Rómversk tala af týndu blaði úr Hauksbók,“ Grettisfærsla. Safn ritgerða
eftir Ólaf Halldórsson (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1990), 461–466.
20 Sama rit, 464.
21 Sveinbjörn Rafnsson, Sögugerð Landnámabókar, sjá einkum bls. 21.
22 „Kristni saga (Formáli I),“ Íslenzk fornrit XV,I (Biskupa sögur I. Fyrri hluti. Reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag, 2003), einkum clviii–clix.