Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 169
169
hefði hann raunverulega talið vit í því að gefa upp tvo í stórum dráttum
samhljóða texta sem mismunandi og sjálfstæðar heimildir?“ Eftir minni
tilgátu gerir hann það reyndar ekki í klausum 1–4 hér að framan (né þeim
fjórum sem Jón Jóhannesson vísar til í viðbót), en hins vegar í klausu 5 þar
sem Árni vitnar, ef ég hef rétt fyrir mér, í sama Landnámuviðaukann bæði
prentaðan og í handriti. Það er a. m. k. ótvírætt í þeim tveimur klausum
sem Ólafur Halldórsson tilfærði í viðbót við dæmi Jóns að Árni vitnar í
sama rit í tveimur gerðum, þ. e. Kristnisögu í handriti Jóns Erlendssonar
og í Skálholtsútgáfunni sem prentuð var eftir því sama handriti. Því mætti
allt eins hugsa sér að þriðji textinn, sá í Resensbók, væri líka Kristnisaga.
Það eru aðallega hin gerólíku heiti sem mæla gegn því.
Hvar endar Kristnisaga?
Í miðaldahandritum, þar sem margs konar efni er skráð á eina bók, geta
fyrirsagnir eða inngangsorð markað hvar nýr efnisþáttur hefst án þess
að endilega sé ljóst hvort hann nær aftur að næstu sams konar fyrirsögn
eða hvar hann eiginlega endar. Svo er um Kristnisögu Hauksbókar. Hún
hefst á ekki minna en tvennum inngangsorðum, hvorum með sínu heiti
sögunnar: „Hér hefur Kristni sögu“ og „Nú hefur það hversu kristni kom á
Ísland“.29 En hvar hún endar er ekki eins ljóst. Niðurlagið er týnt aftan af
Hauksbók sjálfri en í útgáfum er jafnan fylgt uppskrift Jóns Erlendssonar
eins langt og hún nær. Endar hún þá á öldungis ótengdri fróðleiksklausu,
um dánardægur Rögnvalds jarls kala og Ólafs Tryggvasonar. Ólafur Hall-
dórsson hefur bent á að Jón muni hafa skrifað fram yfir sögulokin, síðasta
„klausan sé alls ekki lok Kristni sögu, heldur upphaf samtínings, og hafi
framhald hans verið á 45. blaði handritsins.“ Ólafur færir rök að því að Jón
hafi skrifað upp allt 44. blaðið og telur að þá fyrst hafi hann „áttað sig á
hvar sagan endaði“.30 Einfaldari skýring væri að handritið hafi ekki náð
29 Skilja má „Hversu kristni kom á Ísland“ sem fyrirsögn af sama tagi og „Hversu Noregur
byggðist“ í formála Flateyjarbókar. Það er þetta heiti Kristnisögu sem fræðimenn 17. og 18.
aldar þýða á latínu sem „religio Christiana in Islandiam introducta“.
30 Ólafur, „Rómversk tala,“ 462. Áður hafði Finnur Jónsson bent á hið sama (í inngangi að
Hauksbók. Udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter …, lix): að Jón hafi skrifað eftir lok
Kristnisögu „nogle paragraffer“ sem fremur tilheyri eftirfylgjandi efni handritsins.
AF RESENSBÓK . . .