Gripla - 20.12.2011, Síða 170
GRIPLA170
lengra, og hefði þá týnst aftan af því frá því Björn á Skarðsá hafði það í
höndum.31
Ábending Ólafs um sögulokin snýr að lokaklausunni einni. En hafi
Jón Erlendsson á annað borð gengið þess dulinn hvar sagan endaði – eða
talið hlutverk sitt að afrita handritið til loka hvað sem söguskilum leið –
má reyndar draga í efa um allan lokakaflann í uppskriftinni, og þar með
í útgáfum Kristnisögu, hvort hann á raunverulega að teljast til sögunnar.
Það er sá kafli sem Björn á Skarðsá hefur einnig skráð í viðauka sinn við
Landnámu, í talsvert fyllri gerð en í Hauksbók,32 og hefur þar vafalaust
farið eftir Resensbók, enda sanna tilvísanir Árna Magnússonar að þar var
þessi kafli líka. Hvernig Björn valdi efnið í þennan viðauka hefur verið
nokkur ráðgáta,33 en m. a. hafa menn bent á að þennan kafla hafi hann ekki
litið á sem hluta af Kristnisögu og þess vegna skrifað hann upp eins og fleiri
sundurlausar fróðleiksklausur sem staðið hafa aftast í Hauksbók.34 Hafi
þessi verið skoðun Björns þá er hún fullkomlega eðlileg. Þessi lokakafli, 18.
kafli Kristnisögu,35 er annálskennd frásögn af atburðum áranna 1118–1121,
auk höfðingjatals 1118 og ættrakningar frá Hafliða Mássyni. Höfðingjatalið
má vissulega segja að sé í anda Kristnisögu því að áþekkar upptalningar
koma þar víðar fyrir. En að öðru leyti er kaflinn ólíkur öðru efni hennar og
tengist því ekki sem neins konar niðurlag eða sögulok. Kaflanum á undan
lýkur hins vegar með glæsilegum endahnút. Þar er tekið upp niðurlag
Íslendingabókar um andlát Gissurar biskups og bætt við: „Þá hafði Ísland
verið byggt tvö hundruð vetra [tólf]ræð, annað í heiðni en annað í kristni.
Þá var liðið frá holdgan drottins vors, herra Jesú Kristí, ellefu hundruð og
átján ár.“36 Í samhengi Hauksbókar er alveg eðlilegt að líta svo á að fyr-
irsögnin „Kristni saga“ eigi við textann hingað og ekki lengra.
31 Þar hafa liðið 10–20 ár á milli, sjá Jón Helgason, „Introduction,“ xxvii.
32 Jón Jóhannesson (Gerðir Landnámabókar, 17) dregur fram skemmtilega áþreifanlegt dæmi
um að það er Haukur sjálfur sem hér (eins og víðar) styttir forrit sitt um leið og hann
skrifar.
33 Yfirlit hjá Kupferschmied, Untersuchungen, 13–14.
34 Jón Jóh., Gerðir Landnámabókar, 18. Aðra skýringu hefur Sveinbjörn Rafnsson (Sögu gerð
Landnámabókar, 22): að Birni hafi „þótt allt efni“ þessara kafla „betra og fyllra í Hungurvöku.“
En tilvísanir Björns til Hungurvöku (sem Jakob Benediktsson lýsir, Skarðsárbók, xl) benda til
að hann hafi ekki borið efni Viðaukans saman við hana fyrr en eftirá.
35 Í sumum útgáfum 14. kafli og svo nefnist hann í rannsókn Jóns Jóhannessonar.
36 „Kristni saga,“ útg. Sigurgeir Steingrímsson, Íslenzk fornrit XV,II (Biskupa sögur I. Síðari
hluti. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2003), 43–44 (ritháttur samræmdur hér).