Gripla - 20.12.2011, Qupperneq 172
GRIPLA172
torskilið er, ef Björn tekur mikið af þessu efni úr Hauksbók, af hverju hann
skrifar það ekki upp í réttri röð.
En ef það var allt í Resensbók?
Ef Árni Magnússon talar um „Appendix Landnámu“ í Resensbók vegna
þess að hann líti á hann sem afbrigði af sama texta og „Appendix sög-
unnar“ í Skálholtsútgáfu Landnámabókar, þá hafa flestir eða allir kaflar í
Viðauka Skarðsárbókar átt sér þar hliðstæðu líka. Og þá er augljóst hvernig
Björn á Skarðsá hefur gengið til verks. Hann hefur farið að við Viðaukann
á nákvæmlega sama hátt og Landnámu sjálfa: borið saman Hauksbók og
Resensbók, skrifað upp eftir þeirri sem honum virtist hafa fyllri texta
– sem hér var greinilega Resensbók – en bætt við sérefni úr hinni og þá
getið heimildar.39 Það gerir hann tvívegis í Viðaukanum, tilfærir á öðrum
staðnum orðamun úr Hauksbók og skrifar á hinum stuttan kafla eftir henni
og getur heimildar á spássíu.40
Það er reyndar stærsti kosturinn við þessa tilgátu að hún gerir skiljanleg
vinnubrögð Björns við Viðaukann. Hann hefur ekki tínt neitt saman úr
ólíkum heimildum eða valið að eigin smekk (það væri þá líka meiri smekk-
urinn, annar eins samtíningur og Viðaukinn er) heldur bara skrifað upp
texta sem hann hafði fyrir sér í tveimur skyldum gerðum, alveg eins og
Landnámu sjálfa.
Um leið skýrist sérkennilegt smáatriði í Viðaukanum, nefnilega hvers
vegna tveir síðustu kaflar hans41 eru að hluta til sama efnis. Þeir eru tvær
mismunandi útfærslur á upptalningu Íslendingabókar á erlendum bisk-
upum sem verið hafi á Íslandi. Fyrri kaflinn, sem Björn tekur fram að
hann hafi eftir Hauksbók, er lítið annað en nafnaruna og nefnir þó fjóra
biskupa umfram Íslendingabók, alla titlaða „Grænlendingabiskupa“. Nú
var Haukur lögmaður áhugasamur um grænlensk málefni, hafði m. a. tekið
saman skrá um tíu biskupa í Görðum á Grænlandi,42 og fjórum þeirra, sem
39 Aðferðinni lýsir Jakob Benediktsson, Skarðsárbók, xxxvii–xxxviii.
40 Orðamunur við 9. kafla, Skarðsárbók, 193; Hauksbók heimild að 13. kafla, sama rit, 195. Á
þriðja staðnum, í 4. kafla (Skarðsárbók, 190), er löng ættrakning til „herra Hauks lögmanns“
sem hlýtur að vera úr Hauksbók líka þótt Birni láist þar að vísa til heimildar.
41 Skarðsárbók, 195–196, kaflar 13 og 14. Sveinbjörn Rafnsson (Sögugerð Landnámabókar, 23)
skýrir samhengi kaflanna líkt og hér er gert.
42 Sá listi hefur verið einhvers staðar í Hauksbók, er týndur úr henni nú en varðveittur í fyrr-
nefndum Hauksbókarútdráttum. Sjá Jón Helgason, „Til Hauksbóks historie,“ 6.