Gripla - 20.12.2011, Page 229
229
GIOVANNI VERRI
UM RITHENDUR ÁSGEIRS JÓNSSONAR
Nokkrar skriftarfræðilegar athugasemdir1
ÞEGAR FORNMENNTASTEFNA barst til Norðurlanda á 17. öld hófst
hörð keppni milli Dana og Svía um að safna íslenskum handritum, skrifa
þau upp og rannsaka. Norræn fræði áttu því upphaf sitt á þeim tíma og for-
ystumenn á því sviði urðu, við lok aldarinnar, tveir Íslendingar, Árni Magn-
ússon handritasafnari og síðar prófessor við Hafnarháskóla og Þormóður
Torfason sagnaritari á eynni Körmt í Noregi. Mikilvægi þeirra er ótvírætt
en lítill vafi leikur á því að þeir hefðu ekki náð sama árangri án aðstoðar
skrifara sinna. Afkastamestur þeirra var Ásgeir Jónsson — á 17. og 18. öld
skrifaði enginn meira en hann ef frá er talinn Árni Magnússon sjálfur.
Alls gegndi Ásgeir skrifarastarfi í rúmlega tuttugu ár. Hann hófst handa
á Íslandi og fór síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann var í þjónustu
Árna í tæplega tvö ár, en öllu lengur var hann hjá Þormóði Torfasyni á
Stangarlandi. Ásgeir skrifaði fjölmörg handrit og þrátt fyrir að sum þeirra
hafi farið forgörðum (sbr. AM Fortegnelse, 66–120) eru varðveitt meira en
150 handrit með hans hendi, að mati Más Jónssonar (2009, 282), um 35
þúsund blaðsíður alls. Langflest handrit með hendi Ásgeirs Jónssonar eru
geymd í Árnasafni, á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í
Reykjavík og í Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn, en fáein
eru í öðrum söfnum á Norðurlöndum, í Konungsbókhlöðu í Kaupmanna-
höfn, háskólabókasafninu í Uppsölum, þjóðarbókhlöðunni í Ósló og í
söfnum Landsbókasafns Íslands. Einnig eru fjögur bindi til með bréfaupp-
skriftum (AM 282–85 a fol.) sem Ásgeir gerði fyrir Þormóð Torfason á
meðan hann var skrifari sagnaritarans.
1 Grein þessi er byggð á fyrirlestrinum ‘Þriðja (rit)hönd Ásgeirs Jónssonar. Nokkur orð um
hina ‘membranagtige’ brotaskrift’ sem haldinn var á Mímisþingi 2008. Nýtt efni hefur
komið fram við frekari rannsóknir á rithöndum Ásgeirs Jónssonar og verður því bætt hér
við það sem þar var sagt og annað leiðrétt. Jafnframt er mér ljúft og skylt að þakka Guðvarði
Má Gunnlaugssyni fyrir innihaldsríkar samræður um handrit, skrift og skrifara.
Gripla XXII (2011): 229–258.