Gripla - 20.12.2011, Qupperneq 232
GRIPLA232
bókarinnar Vatnshyrnu (Stefán Karlsson 1970b, 289–91),7 og hélt áfram
með afritun Möðruvallabókar (Már Jónsson 1998, 66) eftir að Eyjólfur
Björnsson bættist í vinnuhóp Árna.8 Margt annað skrifaði Ásgeir fyrir
handritasafnarann, og einnig fyrir sjálfan sig, til haustsins 1688 þegar hann
fór með Þormóði Torfasyni sagnaritara til Stangarlands í Noregi.9
Spurningar vakna um hvað olli því að Ásgeir fór í þjónustu Þormóðs.
Már Jónsson (1998, 67) getur þess að „honum [þ.e. Ásgeiri] fór ekki fram.
Eyjólfi var betur ljóst hvað Árni vildi” og má hugsa sér að óánægja Árna
með skrifaravenjur Ásgeirs hafi legið að baki. Hins vegar virðist sennilegra
að tilviljun og frændsemi Ásgeirs við Þormóð10 hafi valdið því, ekki síst
í ljósi þess að Árni nýtti sér aðstoð Ásgeirs meðan hann var í þjónustu
sagnaritarans. Árni bað hann oft að skrifa upp úr handritum, sem voru á
Stangarlandi, fyrir rannsóknir sínar (sbr. Má Jónsson 2009, 288–97). Árið
1688 ætlaði Þormóður að fara til Kaupmannahafnar til að „ræða við Bart-
holin og aðra, kaupa bækur og útvega sér skrifara“11 (Már Jónsson 1998,
74, sbr. AM 282 fol., bl. 166 og 168) og var kominn þangað í ágústbyrjun.
Ætlun hans var að ráða Eyjólf í sína þjónustu en það tókst ekki. Hjá Árna
var þó annar atvinnuskrifari, Ásgeir frændi Þormóðs, er fékk stöðuna eftir
meðmæli Árna (Kålund 1916, 3, sbr. AM 282 fol., bl. 195–97). Hann fór til
Stangarlands með Þormóði 23. október 1688 (Már Jónsson 1998, 74) og féll
7 Skriftin í AM 558 a 4to bendir þó ef til vill til að handritið hafi verið fyrsta uppskriftin sem
Ásgeir vann hjá Árna í Kaupmannahöfn, eins og rætt verður nánar á eftir.
8 Eyjólfur var launsonur Björns ráðsmanns Grímssonar og ólst upp hjá Ásu Torfadóttur
systur Þormóðs Torfasonar sagnaritara. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1687 og fór
sama ár til Kaupmannahafnar þar sem hann var skráður í stúdentatölu 20. september. Ása
ætlaði að hann færi í þjónustu Þormóðs en ekkert varð úr því og virðist Eyjólfur hafa átt
sök á því. Hann dvaldi áfram í Kaupmannahöfn í tvö ár en lagðist í óreglu og kom aftur til
Íslands 1689 (Páll Eggert Ólason 1948–52, I:451).
9 Á bl. 129v í Thott 1768 4to er athugasemd með hendi Jóns Ólafssonar úr Grunnavík
sem segir „Þ er at skilja, at sgeir Joonsson, sem sagna book þessa hefur mestalla eðr
lldungis alla ritað, hafi dvalit i Kpmannahfn. Enn sijdan foor hann med Historiographo
Regio og Assess. Þormodi Torfa syni til Noregs, ad eg meina og hefr skrifad margar Sgu
Bækur fyrir hann, og lijka nockrar fyrir silfan sig.“ (Loth 1960a, XIII). Jon Gunnar
Jørgensen (2007, 285) segir einnig að Árni hafi keypt nokkur handrit m. h. Ásgeirs af ekkju
hans.
10 Guðrún móðir Ásgeirs var dóttir Önnu Erlendsdóttur, föðursystur Þormóðs (Kålund 1916,
XXX).
11 Frá árinu 1682 hafði Þormóður þrjá skrifara, Íslendinginn Árna Hákonarson, sem fór aftur
til Kaupmannahafnar 1685, og tvo Norðmenn, Hartvig Bugge og Truid Nitter (Hagland
2002, 35–36), en var ekki sérlega ánægður með þá.