Gripla - 20.12.2011, Page 234
GRIPLA234
leiðrétt smá ónákvæmni sem mér sýnist vera í grein Más, því samkvæmt
henni skrifaði Ásgeir 28 handrit milli hausts 1686 og hausts 1688 (sbr.
ramma á bls. 285), en handritin virðast vera 27 vegna þess að AM 311 fol.
hlýtur Ásgeir að hafa skrifað hjá Þormóði á árinu 1689. Að minnsta kosti er
alveg víst að uppskriftin í AM 311 fol. er gerð fyrir Þormóð. Sagnaritarinn
bað um uppskrift Frostaþingslaga í bréfi til Árna dagsettu 23. febrúar 1689
(Kålund 1916, 4–5, sbr. AM 282 fol., bl. 213–14), þegar Ásgeir var á eynni
Körmt, þannig að sennilegt er að Árni hafi tekið uppskrift AM 310 fol.,
sem Ásgeir skrifaði í Kaupmannahöfn, með sér til Þormóðar og Ásgeir hafi
skrifað hitt eintakið á meðan Árni dvaldi hjá sagnaritaranum.
Einnig verður að bæta einu handriti við listann, Lbs 1562 4to, sem ég
fann við rannsóknir mínar á Hrafnagaldri Óðins (Verri 2007, 22–27). Þar
eru fjögur kver með hendi Ásgeirs og virðast vera sérstaklega skrifuð til
að bæta nýju efni við handritið. Blöðin með hendi hans þori ég ekki að
tímasetja í bili; þó getur skriftin bent til þess að kverin séu ekki yngri en
frá árunum 1688–89.
Eldri skoðun á rithöndum Ásgeirs Jónssonar
og nýjar hugleiðingar í skriftarfræði
Eins og fyrr er getið lýsti Kålund rithönd Ásgeirs á einfaldan hátt, en af
handritaskrám hans má sjá að hann hefur tekið eftir breytileika í skrift
Ásgeirs. Svo dæmi sé tekið telur hann að AM 7 fol. sé með „kursiv” (1889–
94:I, 9) og AM 16 fol. með „halvfraktur” (1889–94:I, 12) en í flestum til-
vikum segir hann ekkert um skriftina.
Í grein um tengsl milli skriftartegunda Ásgeirs Jónssonar og forrita gerði
Agnete Loth nánari athugun á rithendi Ásgeirs og getur þess að hann hafi
notað þrjár mismunandi skriftartegundir. Samkvæmt henni skrifaði Ásgeir
meirihluta sagnahandritanna með „halvfraktur“ en minnihluta þeirra með
„kursiv“ sem hann hefur einnig notað við bréfauppskriftir í bréfabókum
Þormóðs Torfasonar (1960b, 207). Loth birtir sýnishorn úr AM 142 fol.
fyrir rithöndina sem hún kallar „kursiv“ (1960b: 1. mynd) en úr Thott 1768
4to fyrir höndina sem hún kallar „halvfraktur“ (1960b: 3. mynd). Auk þess
telur hún að finna megi þriðju rithönd Ásgeirs í nokkrum öðrum hand-