Gripla - 20.12.2011, Page 240
GRIPLA240
í textaskrift. Línubil er oft aðeins þéttara en í kansellískrift og háleggir og
síðleggir eru styttri en í þeirri skrift (sbr. sýnishorn 9.2 og 3 á móti 4 og 5 í
greinarlok). Af því leiðir að hlutfallið milli þeirra hluta stafanna sem liggja
milli axlarlínu og grunnlínu (e. body of the letter) og leggjanna verður lík-
ara því sem er í textaskrift (sbr. sýnishorn 9.4 og 5 í greinarlok). Þetta á þó
ekki alltaf við hvað varðar hátt-s. Sumir háleggir enda með belgjum en fleiri
hefjast með upphafstriki eða klofningu en í kansellískrift. Skriftin hallast
ekki til hægri heldur er nokkuð lóðrétt. Sumir stafir eru myndaðir í einum
óbrotnum drætti en flestir eru hins vegar uppbyggðir (e. constructed) og
myndaðir í fleiri dráttum eins og í textaskrift, þó að stundum séu nokkrir
stafir tengdir saman. Brotnar eða hvassar línur sjást oft í þeim og leturgerð
er yfirleitt mun flóknari en í léttiskrift, þó formgerð léttiskriftar komi fram
í sumum stöfum, eins og til dæmis í fljótaskriftar-v (6). Sérstaklega ein-
kennandi fyrir þessa skrift eru engilsaxneskt-f (7) og hvöss d, ð (8, 9). Sú
skrift nefnist kansellíbrotaskrift og getur ýmist verið á millistigi (sýnishorn
9.4 í greinarlok) eða settastigi (sýnishorn 9.5 í greinarlok) eftir handritum.
Eins og vænta má blandaði Ásgeir Jónsson einnig saman kansellískrift
og kansellíbrotaskrift í mismunandi hlutföllum og skriftin er vegna þess
annaðhvort kansellískrift undir áhrifum frá kansellíbrotaskrift eða öfugt,
kansellíbrotaskrift undir áhrifum frá kansellískrift.16
16 Báðar skriftartegundir, kansellískrift og kansellíbrotaskrift, eru þróun af þeirri undirtegund
(hálf-)blendingsskriftar á settastigi sem Derolez (2003, 169) nefnir Fractura (brotaskrift).
Ekta brotaskrift er aðeins að finna í nokkrum þýskum handritum frá síðari hluta 15. aldar,
en fleiri einkennum léttiskriftar er blandað við hana á 16. og 17. öld í rithöndum sem er að
finna í skjölum frá ríkisskrifstofum í Þýskalandi og á Norðurlöndum, þessar rithendur eru
kallaðar kansellískrift og kansellíbrotaskrift. Kansellíbrotaskrift er aðeins óformlegri en
ekta brotaskrift (sjá 15. mynd í Kroman 1975) og fá einkenni léttiskriftar koma þar fram.
Kansellískrift er enn óformlegri (sjá 14. mynd í Kroman 1975) og mun fleiri einkenni létti-
skriftar er að finna í henni. Oft er erfitt að átta sig á því í hverju munurinn á milli þessara
skriftartegunda felst.
(6) (9)(8)(7)