Gripla - 20.12.2011, Qupperneq 247
247
nokkuð smærri og mun óreglulegri en venjuleg kansellískrift Ásgeirs en
svo virðist sem hraði sé ekki eitt þeirra atriða sem ræður úrslitum um gæði
skriftarinnar. Rithöndin virðist frekar óþjálfuð við þessa formlegu skrift,
hraðari fljótaskriftarstafir koma oft fram, en aðrir stafir, sérstaklega d og ð,
virðast vera tilraunir við nýja formgerð (sbr. sýnishorn 9.2–9.5) sem hann
hefur aldrei skrifað áður. Skriftin versnar nokkuð á verso-síðu blaðsins og
varla er hægt að segja að hún sé undir nokkrum áhrifum frá kansellískrift,
nema að m og n eru stundum með hvössu horni hægra megin. Með þessari
rithönd, sem má kalla árfljótaskrift,36 heldur Ásgeir áfram til loka handrits-
ins, en í öðru kveri minnkar skriftin dálítið (sýnishorn 9.8 í greinarlok).
Þetta nægir til þess að draga þá ályktun að þegar Ásgeir skrifaði AM 588
a 4to hafi hann verið óvanur kansellískrift eða kansellíbrotaskrift og hafi
þess vegna fallið aftur inn í sína venjulega fljótaskriftarhönd. Fleira bendir
einnig til þess að fyrri hluti handritsins (sýnishorn 9.6 í greinarlok), til bl.
5r, 10. línu, sé einnig með hendi Ásgeirs og skrifaður með hans venjulegu
rithendi, án nokkurra áhrifa frá formlegri skrift, þó að erfitt sé að sanna
það. Griporð eru notuð reglulega í fyrri hluta, en einnig á bl. 6v, 8r og 17r
í síðari hluta. Þau eru öll með sömu hendi en varla er hægt að hugsa sér
að skrifari fyrri hluta hafi haldið áfram að skrifa griporðin í síðari hlut-
anum en ekki textann.37 Samsvörun er milli margra stafa í fyrri og síðari
hluta handritsins og öðrum handritum með hendi Ásgeirs (a, A, b, d, e,
engilsaxneskt-f ⟨š⟩, L, p, r, s, t, u, v, y, þ, æ, sbr. sum dæmi á sýnishorni 9.6,
9.7 og 9.8 í greinarlok). Þá er sérkenni á háleggjum sem er að finna í fyrri
hluta hið sama og einkennir mjög rithönd Ásgeirs, þ. e. klofningar og upp-
hafsstrik. Auk þess er sams konar blek notað í öllu handritinu. Allt þetta
bendir sterklega til þess að allt handritið sé með hendi Ásgeirs, þótt ekki sé
hægt að sanna það.
Af þessu má því draga þá ályktun að AM 588 a 4to hafi verið fyrsta
handritið sem Ásgeir Jónsson skrifaði í Kaupmannahöfn og ætla má að
36 Ekki er alltaf auðvelt að skýra muninn á milli ár- og síðfljótaskriftar en hann snýst aðallega
um formgerð e og r. Einnig má nefna að svo virðist sem engilsaxneskt-f sé einkum að finna í
árfljótaskrift en mun síður í síðfljótaskrift í íslenskum handritum. Notkun á engilsaxnesku-f
er því mögulega hluti af skilgreiningu á muninum á milli skriftargerðanna.
37 Þar að auki er rithöndin sú sama og griporð eru skrifuð með hér og þar á spássíu í öðrum
handritum m. h. Ásgeirs, t.d. í AM 505 4to, bl. 27v, 31r, 37r. Þótt hægt sé að hugsa sér að
skrifari fyrri hluta AM 588 a 4to hafi haldið áfram að skrifa griporðin en ekki textann er
alveg óhugsandi að hann hafi skrifað griporðin í handritum þar sem allur texti er með ann-
arri hendi.
UM RITHENDUR ÁSGEIRS JÓNSSONAR