Skírnir - 01.01.1948, Blaðsíða 45
Skírnir
Á ártíð Ara fróða
43
Ara voru Stjörnu-Oddi, Bjarni hinn tölvísi og höfundur
1. málfræSisritgerðarinnar.
Þetta er stétt Ara og umhverfi. Hann var kominn af
höfðingjaættum, hvert sem litið er. Þorkell Eyjólfsson,
Þorsteinn Síðu-Hallsson og Þorgils Arason á Reykhólum
voru langafar hans, en af langömmum hans má nefna
Guðrúnu Ósvífursdóttur hins spaka og Helgu dóttur Ein-
ars Þveræings. Mest af atkvæðamönnum samtímans voru
skyldir Ara. Hann elzt upp með Gelli afa sínum, Halli í
Haukadal; er lærður af Teiti fsleifssyni; hefur náin kynni
af Gizuri biskupi, Sæmundi fróða, Þorláki biskupi Run-
ólfssyni og Katli biskupi. Nokkra af heimildarmönnum
Ara telur Snorri upp í kafla þeim, sem ég fór með áðan,
en ég skal bæta við því, sem Ari segir um Markús lögsögu-
mann Skeggjason: „At hans sögu er skrifuð ævi allra lög-
sögumanna á bók þessi, þeira es váru fyrir várt minni, en
honum sagði Þórarinn bróðir hans ok Skeggi faðir þeira
ok fleiri spakir menn til þeira ævi, es fyrir hans minni
váru, at því es Bjarni enn spaki hafði sagt, föðurfaðir
þeira, es munði Þórarin lögsögumann [Ragabróður] ok
sex aðra síðan.“ Á undan Ara og allt umhverfis hann eru
spakir menn og fróðir.
Spakur, margspakur, minnugur, ólyginn, óljúgfróður,
þetta eru aðalhrósyrði Ara. Þetta er líka hugsjón hans
sem vísindamanns. Eiginleikar, sem þroskazt höfðu með
hinum fróðu og spöku fyrirrennurum og heimildarmönn-
um, ná hjá honum fullum þroska. Hann öðlast kynlega
heiðríkju og hlutlægni, fágæta meðal sagnfræðinga mið-
alda og raunar flestra tíma. Vist hans í flokki landstjórn-
armanna hefur veitt honum skilning á hinum heildstæðu
(eða collectivu) öflum þjóðlífsins og sögunnar, ríkinu og
stofnunum þess, lögunum, trúarbrögðunum; skráning
skattbændatalsins sýnir, að hann hefði kunnað að meta
tölfræði og hagfræði, ef þær fræðigreinir hefðu verið til
á hans dögum. Þetta allt gefur íslendingabók í aðra rönd-
ina svo einkennilega mikinn nútíðarblæ. Sama máli gegn-
ir um vandlæti hans um heimildir, heimildarýni hans.