Skírnir - 01.01.1948, Blaðsíða 208
202
Ritfregnir
Skímir
Um gerð bókarinnar að öðru leyti getur sitt sýnzt hverjum, það
má löngum deila um efnisflokkun og mat á höfundum, án þess að
nokkur lokaúrskurður geti þar komið til. Hér skal drepið á fátt
eitt, og verða það aðeins sundurlausar athugasemdir og hugleið-
ingar.
Ekki tjáir að sakast um þá annmarka, sem hljóta óhjákvæmilega
að leiða af verkaskiptingu bókmenntasöguhöfundanna tveggja og
þar með af efnistakmörkun bókarinnar. Það er t. a. m. erfitt að
lýsa rómantík 19. aldar án Bjarna og Jónasar. Og mynd skálda eins
og Jónasar og Matthíasar verður lítið annað en skugginn einber,
þegar óbundnu máli þeirra er einu til að dreifa. Neytir og höfund-
ur ekki allra þeirra fanga, sem hann hefur yfir að ráða, til að fylla
myndina, hefði t. a. m. getað fjallað ýtarlegar um Sögukafla og
Bréf Matthíasar til persónulýsingar og um leikrita- og söguþýðingar
hans til lýsingar á list hans og vinnubrögðum. Yfirleitt finnst mér
höfundur fara of fljótlega yfir sjálfsævisögur manna í bók sinni,
því að oft eru þær með því persónulegasta og merlcilegasta, sem
eftir þá liggur (og hef ég þar engan veginn séra Matthías sérstak-
lega í huga). — Þá hefur höfundur sjálfur fundið mjög til þess,
hve hlutföll fyrra og síðara hluta 19. aldar röskuðust við efnistak-
mörkun hans og því talið tiltölulega fleira með frá fyrra hlutanum
til nokkurs mótvægis. Hefði hann þó getað aukið á jöfnuðinn með
því að gera rækilegri skil bókmenntastarfsemi Magnúsar Stephen-
sens, þar sem hún fellur að mestu leyti eftir aldamótin 1800. En
höfundur tæpir aðeins á henni, þar eð hann telur hana —■ rétti-
lega — lokaþáttinn í bókmenntaþróun 18. aldar. En það verður
oftast svo, að aldamótamenn eru að miklu leyti böm gömlu aldar-
innar. Og myndi höfundur að bókmenntasögu, sem ná ætti fram
að 1800, rekja sögu Magnúsar til loka? Verður og ekki erfitt að
fylla umhverfi Bjarna Thorarensens, þegar Magnús er nærri því
numinn þaðan á burt? Það kemur að minnsta kosti annarlega fyrir
sjónir í bókmenntasögu 19. aldar að sjá þar ámóta miklu rúmi fóm-
að Eiríki Laxdal Eiríkssyni —. sem ekkert er prentað eftir og lítil
bókmenntaáhrif hafði — og Magnúsi Stephensen, sem mestu réð
einstakra manna um bókmenntalíf íslendinga fyrsta þriðjung ald-
arinnar.
í efnisvali sínu hefur höfundur annars verið mjög stórtækur —
eða öllu heldur fjölþreifinn. Hann getur ákaflega margra höfunda,
og er það mikill kostur á uppsláttarhandbók, að sjaldan verður þar
gripið í tómt. Hitt er umdeilanlegra, hvort það sé að öllu leyti kost-
ur á bókmenntasögu. Höfundamergðin getur glapið þeim heildar-
sýn, sem ekki eru áður kunnugir bókmenntum okkar, og gert þeim
yfirsýnina of flatneskjulega, því að ekki er hér alls staðar nógu
glögglega greint milli þúfna, hóla og f jalla, þótt oftast sé sæmilega
skilið þar á milli (t. a. m. minni háttar höfundar settir sér í kafla).