Skírnir - 01.01.1948, Blaðsíða 209
Skírnir
Ritfregnir
203
Sem dæmi þess, að hlutföllin milli einstakra höfunda eru ekki nægi-
lega hnitmiðuð, má nefna, að nærri tvær blaðsíður eru um hvorn,
Axel Thorsteinsson og Lárus Sigurbjömsson, rúm blaðsíða um Jón
Björnsson eldra og sömuleiðis um Sigurð Eggerz, en 7 línur um
sögur Einars Benediktssonar og annað eins um Jakob Thorarensen.
Og höfundurinn er ekki nógu strangur í mati sínu á þvi, hverjum
beri þegnréttur í bókmenntasögunni. Hér eru til sögunnar nefndir
ýmsir höfundar, sem ég tel vafasamt, að hljóta ættu nokkurt rúm,
jafnvel í stærstu og rækilegustu bókmenntasögu — sem væri þó
fyrst og fremst ætluð Islendingum sjálfum — nema i þurru höf-
unda- og bókfræðitali hennar, án umsagnar og mats. Þegar lesnar
eru erlendar bókmenntasögur, annars vegar ágrip, hins vegar ná-
kvæmustu stórverk, kemur i ljós, að stærðarmunurinn er ekki aðal-
lega í því fólginn, að svo miklu fleiri skálda sé getið í stóru sögun-
um, heldur fyrst og fremst í hinu, að höfuðskáldunum eru gerð þar
svo miklu rækilegri skil. Við Islendingar höfum jafnan talið til-
tölulega miklu fleiri menn til sögu okkar og bókmennta en nokkur
önnur þjóð, og sennilega verður svo ætíð. En gæta verður þar hófs,
svo að smælkið allt skyggi ekki á gildustu stofnana. Seta í alþingis-
sölum getur ekki tryggt neinum rúm i sögu íslands, prestsvígsla
ekki í kirkjusögu og vígsla prentsvertunnar ekki í bókmenntasögu.
En þegar þræða á nær því hvert skarð, líkt og hér er gert, verður
vandséð, hvar lágmarkslínuna á að draga og hverjir lendi lægra en
henni nemi. Og var t. a. m. síður ástæða til að geta Helga Hjörvars
en Ólafs við Faxafen og Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar, svo að
eitthvað sé nefnt?
Þá er að því að hyggja, hvernig þessu mikla efni er fyrir komið.
Efnisskipan bókarinnar mótast af því, að höfundur er ekki aðeins
að semja uppsláttarbók, heldur einnig — og ekki siður — bók-
menntasögu, samfellt yfirlit. Bókinni er því skipt í kafla, aðallega
eftir bókmenntastefnum, sem höfundur reynir að marka. Þær eru
í stórum dráttum á þessa leið: Rómantíkin fram um 1880, þá raun-
sæisstefnan til aldamóta, síðan bjartsýn og framsækin hugsæis- og
þjóðernisstefna (Progressive Idealism and Nationalism) til 1918,
en eftir það þjóðleg rómantík (National Romanticism), og um 1930
hafa vinstrisinnaðir rithöfundar (Leftists and Modernistic Writers)
kvatt sér hljóðs og skipa aðalrúmið til loka þess tíma, er bókin tek-
ur til (1940). Áður höfðu — í aldarbyrjun — komið fram „bók-
menntir sálarinnar“ (Literature of the Soul), einkum með íslenzk-
um rithöfundum í Danmörku og síðar á fslandi eftir stríðið, en þar
renna þær saman við þjóðlegu rómantikina eftir 1920. Loks er kafli
um vestur-islenzka höfunda og annar um Jón Sveinsson (Nonna).
Það er auðvitað miklum vandkvæðum bundið að skapa sér sögu-
lega yfirsýn yfir þann tíma, sem nýliðinn er. Nálægðin varnar
inönnum þeirra fjarvídda, sem til þess eru nauðsynlegar. Hins vegar