Skírnir - 01.01.1948, Blaðsíða 210
204
Ritfregnir
Skírnir
er heildarsýn og mörkun stefna eitt aðalatriði í allri sögu. Það er
því stórum virðingarvert, hve mikið far höfundurinn hefur gert
sér um að draga heildarlínur bókmenntastraumanna allt til bókar-
loka. 0g auðséð er, að allt er hér gert að rækilega íhuguðu máli.
En það væri ósanngjarnt í höfundarins garð að ætlast til þess, að
honum tækist að marka þau stefnuhvörf og velja þeim þau heiti,
sem framtíðin muni að öllu leyti staðfesta. Þar verður að sjá, hvað
setur. En ætlan mín er, að allmargt muni þar raskast — og sumt
aldrei hljóta almenna viðurkenningu. Yfirleitt finnst mér höfundur
gera of mikið að því að búta bókmenntasöguna niður í smákafla,
slíta hana sundur og marka þáttaskil, sem eru stundum fremur
ímynduð en raunveruleg. Af þessu leiðir, að hverjum höfundi er
skipað á bás, undir ákveðna stefnu, honum gefið sitt kennimark,
sitt einkunnarorð. Þetta verður að vísu glöggt og einfalt, enda
virðist Stefán Einarsson vera mjög skýr maður í hugsun. En það,
sem sett er fram einfaldara og ákveðnara en það er í raun og veru,
getur jafnvel orðið villandi. Höfundur finnur einnig til þess oft og
tíðum, að hann hefur dregið í einn dilk allf jarskylda menn, og verð-
ur þá að grípa til undantekninga, afbrigða og undirflokka. Þannig
bresta stundum hinar þröngu viðjar, sem hann hefur hneppt efni
sitt í.
Aðalskiptingin á 19. öld mun þó væntanlega lítið haggast, enda
fyrir alllöngu komin í nokkurn veginn fast horf. — Ég vildi aðeins
í þessu sambandi benda á, að ekki er rétt að skipa hér Benedikt
Gröndal Sveinbjamarsyni á undan Jóni Thoroddsen, þar sem Heljar-
slóðarorrusta er bæði samin og prentuð 11 árum síðar en Piltur
og stúlka.
En um flokkaskipan og stefnuheiti í lok 19. aldar og á 20. öld
munu verða skiptar skoðanir. Mér finnst ekki alls kostar vel á því
fara að hafa tvo kafla um raunsæisstefnuna, þar sem í öðrum er
fjallað um Jón Ólafsson, Gest Pálsson og séra Jónas Jónasson, en
aðalmennirnir í hinum kaflanum eru Benedikt á Auðnum og Þor-
gils gjallandi, kallaðir „the men of Þingeyjarsýsla“. Aðalhöfund-
arnir, sem teljast til Progressive Idealism and Nationalism, eru hins
vegar Einar H. Kvaran, Guðmundur Friðjónsson og Jón Trausti.
En höfundi er þó ljóst, að þeir eiga ekki allir samleið, þótt sam-
tímamenn séu. Hann grípur því til þess úrræðis að kalla eina kvísl
þessa straums bókmenntir moldar — eða heimahaganna (Literature
of the Soil), sem upp spretti einkum í Þingeyjarsýslu (m. a. Guð-
mundur Friðjónsson og Heiðarbýlissögur Jóns Trausta). En hefði
ekki verið brotaminnst að skipa þingeysku skáldunum Þorgils gjall-
anda, Guðmundi á Sandi og Jóni Trausta saman í kafla, þar sem
skáldskapur þeirra er og yfirleitt með raunsæisbrag, og kenna þau
við uppruna sinn? Heiti þessa flokks er ekki heldur að öllu leyti
heppilegt. Guðmundur Friðjónsson mun t. a. m. löngum verða