Skírnir - 01.09.1994, Side 12
282
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
þessara hversdagslegu hugtaka. Þoli deigur ljár þeirra ekki langa
brýnslu skýrist það vonandi í framhaldinu - og einhvers staðar
verður maður að byrja.
Það sem liggur fyrst og skýrast í augum uppi, varðandi spurn-
ingu 1), er að hvergi er hægt að ganga að vísum neinum tæmandi
lista yfir allar mannlegar geðshræringar. Blygðun er geðshræring,
sem og samúð, meðaumkun, sorg, reiði, öfund, afbrýðisemi, gleði
og iðrun. Enn fleiri eiga óumdeilanlega heima á þessum lista; um
aðrar ieikur tvímælum. Einn helsti sérfræðingur nútímans um til-
finningar, Amélie Rorty, gengur svo langt að gera það að frum-
forsendu sinni að geðshræringar myndi ekki náttúrlega tegund.9
Til sanns vegar má færa að orðaforðinn sem notaður er um
„hræringar sálarinnar" bendi fremur til einhvers óljóss ættarmóts
en að þær hafi sameiginlegt eðli. En þá er líka skammt yfir í
kenningu um afstæði geðshræringanna við tíma, stað eða málsam-
félag. Islendingar gera til dæmis ekki sama greinarmun á samúð,
sem „sympathy“ annars vegar og „compassion" hins vegar, og
viðtekinn er í enskumælandi löndum, þó að raunar megi finna
orðið „sampíning" um hið síðara í Maríusögu og öðrum fornum
ritum.10 Afstæðishyggja af þessu tagi er hins vegar viðsjálsgripur
því að hún getur meðal annars leitt til þeirrar hæpnu niðurstöðu
að fólk finni til annars konar samúðar í þessu málsamfélaginu en
hinu - og þá á ég ekki aðeins við samúðar af öðru tilefni.
Hér er því margt að varast og kannski einkum það að verða
of þungt haldinn af greiningu hversdagsmáls. Þó að við viljum
ekki skera þvert á æðarnar í innviðum þess er ekki ástæða til að
fylgja þeim nákvæmlega eftir.* 11 Eðli og markalínur hugtaka þurfa
9 Þessi er fyrsta staðhæfingin í inngangi Rortys að ritgerðasafni er hún stýrði,
Explaining Emotions (Berkeley: University of Califomia Press 1980), bls. 1.
10 Um þennan mun má lesa hjá N.E. Snow, „Compassion“, American Philo-
sophical Quarterly 28 (1991).
11 Eg ræði lítillega um greiningu hversdagsmáls („ordinary language analysis"),
sem mjög var í tísku um miðja öldina, og aðra kosti við merkingargreiningu
heimspekilegra hugtaka í „Sendibréfi um frelsi", Hugur 5 (1992). Sama efni
var uppistaðan í fyrirlestri mínum, „Moral Concepts: Normativity without
Relativity", sem fluttur var á 10. samnorræna heimspekiþinginu í Finnlandi í
ágúst 1993 (ópr.).