Skírnir - 01.09.1994, Síða 13
SKÍRNIR
UM GEÐSHRÆRINGAR
283
ekki alltaf að liggja Ijós fyrir af daglegu tungutaki. Enskumælandi
almenningur gerir til dæmis sjaldnast skipulegan greinarmun á
„emotion“ og „feeling“ í hversdagslegri umræðu, en það þýðir
vitaskuld ekki að fásinna sé að draga skýr fræðileg mörk þarna á
milli. Mér virðist því að Rorty sé nokkuð fljóthuga er hún útilok-
ar strax í upphafi þann kost að geðshræringum verði eignað sam-
eiginlegt eðli. Ef til vill má færa rök að slíku sameðli þeirra, sé
nógu djúpt kafað. I bili skulum við þó halda okkur við listann
hér að ofan sem dæmasafn og láta liggja milli hluta hversu margar
aðrar tilfinningar eigi þar heima.
Til frekari skilningsauka ber að geta þess að alla jafna er ég
vísa til hugtaka af þessum lista þá eiga þau við stundlegar tilfinn-
ingar, þ.e.a.s. tilfinningar sem vara í ákveðinn tíma: „Pétur pró-
fessor er alveg þrælafbrýðisamur út í Dag dósent síðan hann frétti
í morgun að tímaritið sem hafnaði grein hans ætlar að birta grein
Dags.“ Auðvitað kann Pétur að hafa verið afbrýðisamur gagnvart
Degi í gær líka af einhverju öðru tilefni, og ef til vill verður hann
einnig afbrýðisamur á morgun af þessari eða einhverri annarri
ástæðu. Við værum þó enn að fást við stundlegar tilfinningar. Ef
allar þessar staðreyndir um Pétur stæðust væri á hinn bóginn ekki
úr vegi að lýsa honum almennt sem „afbrýðisömum einstak-
lingi“. En þar með væri ekki lengur um að ræða stundlega tilfinn-
ingu og því ekki geðshrœringu heldur varanlegt skapgerðarein-
kenni: þá hneigð að finna einatt til geðshræringarinnar afbrýði-
semi við ákveðnar aðstæður.12
Annað ber að nefna: Þótt ást, vinátta og leti séu oft tekin sem
dæmi um geðshræringar mun ég forðast slíkt þar sem mér sýnast
þau eiga meira skylt með skapgerðareinkennum, hneigðum, en
einstökum geðshræringum. Ástfangni maðurinn finnur til gleði í
örmum ástvinu sinnar, afbrýðisemi er hún gefur öðrum undir
12 Þriðja afbrigðið, sem ég huga ekki að hér fremur en hneigðunum, er það sem
kalla mætti skap (,,mood“), sbr. orðasamböndin að vera í góðu eða slæmu
skapi. Sorg er t.d. geðshræring, sýtingssemi sú hneigð að verða sorgmæddur af
litlu tilefni, en depurð eða þunglyndi „skap“ (í þessari merkingu), þ.e. að líða
eins og maður væri sorgmæddur en án nokkurs sérstaks tilefnis. Robert C.
Solomon kallar slíkt skap „frumspekilega alhæfingu geðshræringar" í bók
sinni The Passions (Garden City, N.Y.: Doubleday 1977), bls. 133.