Skírnir - 01.09.1994, Page 16
286
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
niðurstöður sjálfsskoðunar voru í besta falli ósambærilegar, í
versta falli öldungis ómælanlegar og huglægar. Einn gat lýst iðrun
sinni sem magapínu, annar sem möru er hvíldi á honum, sá þriðji
sem samviskubiti (hvað sem það merkti nú nákvæmlega) og
þannig í það óendanlega. Sami einstaklingurinn kunni jafnvel að
lýsa skynjun sömu geðshræringar á ólíkan hátt í ólík skipti. Hver
var þá hin rétta kennd, sú sem auðkenndi geðshræringuna iðrun?
Hinar „bláköldu staðreyndir" vitundarlífsins voru óvart töluvert
fölblárri og volgari en menn höfðu ætlað. Ekki bætti svo úr skák
þegar frægasti heimspekingur aldarinnar, Ludwig Wittgenstein,
tók að ýja að því að sjálfsskoðunin væri ekki aðeins í reynd held-
ur í eðli sínu ótæk aðferð: vitundin væri ekkert einkaleiksvið þar
sem við gætum gengið að leikmunum okkar vísum, fundið þá aft-
ur þegar okkur lysti og greint á milli þeirra á skipulegan hátt.
Getur einn maður myndað leikflokk? Hver á þá að vera hvíslar-
inn?17
En hér er fleira til vansa en það eitt að feyra sé í sjálfsskoðun-
araðferðinni. Mergurinn málsins er sá að ekki virðast vera nein
nauðsynleg tengsl milli tiltekinna geðshræringa og tiltekinna
skynjana. Það er einfaldlega engin kennd til sem lýsa má með
ákveðnum hætti sem gleðikenndznm, reiðikenndinni eða ótta-
kenndinni. Stundum getur maður naumast kyngt vegna geðs-
hræringar, stundum vegna þess að maður er að skrælna af þorsta.
En munnþurrkurinn er einn og hinn sami. Merkar lífeðlisfræði-
legar rannsóknir hafa stutt þessa niðurstöðu: Sjálfboðaliðum er
gefinn ótæpilegur skammtur af adrenalíni eða öðrum efnum, um
leið og þeim er talin trú um að tilefni sé að skapast til mikillar
geðshræringar. Og sjá - „tilraunadýrin" finna öll til sterkra
kennda. En þau hafa ekki hugmynd um hver geðshræringin er
17 Hér er skírskotað til hinna kunnu einkamálsraka Wittgensteins sem eiga að
sýna fram á að tungumálið sé í eðli sínu samskiptatæki en ekki lýsing innri
skynreynda. Skipuleg beiting „einkamáls", án ytri viðmiða, sé þannig útilok-
uð. Þessi kenning er þó mjög umdeild. Eyjólfur Kjalar Emilsson ræðir hana
stuttlega í „Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs“, Skírnir 166 (haust 1992), bls.
356 og áfram.