Skírnir - 01.09.1994, Page 21
SKÍRNIR
UM GEÐSHRÆRINGAR
291
ing er vissulega knýtt við hvort tveggja. En um leið er hún annað
og meira en einber kennd eða einbert atferði. Þetta eru fylginaut-
ar hennar - en hver er hún sjálf?
Það þarf svo sem ekki að koma lesendum á óvart að Ágúst H.
Bjarnason var búinn að sjá feigðarmörkin á James-Lange kenn-
ingunni löngu áður en hún, og aðrar skynkenningar, höfðu runn-
ið sitt skeið á enda í hugmyndasögunni. Af gerhygli sinni lastar
Ágúst hana fyrir að horfa framhjá því „að geðshræringarnar þurfa
jafnan að hafa eitthvert andlegt tilefni":
[...] til þess að verða hræddur, þarf maður að minsta kosti fyrst að halda,
að einhver hætta sje á ferðum; og til þess að maður reiðist, þarf maður að
taka eitthvað sem móðgun eða mótþróa; til þess að maður syrgi eitthvað
eða tregi, þarf manni fyrst að finnast, að einhvers sje í mist, og til þess að
gleðjast, þarf maður að halda, að eitthvert happ hafi borist sjálfum manni
eða öðrum til handa. Af þessu leiðir geðhrifin og geðshræringuna.25
í ljósi þessara orða Ágústs getum við nú fikrað okkur nær hinum
raunverulega skilsmun kennda og geðshræringa. Kenndirnar hafa
enga tilvísun utan sjálfra sín; nauðsynlegt og nægilegt skilyrði
þeirra er það eitt að vera skynjaðar sem slíkar. Geðshræringarnar
hafa hins vegar „stefnu" eða „viðfang" sem vísar út á við. Að
segjast vera reiður, punktur og basta, er í raun ekki annað en
stytting á því að segjast vera reiður við einhvern, vegna einhvers.
„Ég er sárreiður við þig að þú skyldir dirfast að mæta drukkinn í
afmælið mitt!“ gæti ég sagt við mág minn. Og tökum nú eftir því
að tilefni eða viðfang reiðinnar þarf ekki nauðsynlega að vera hið
sama og orsök hennar. Kannski varð ég reiður við aumingja
manninn af þeirri orsök einni að ég var illa fyrir kallaður: hafði
ekki sofið dúr nóttina fyrir afmælið. Og það að hann birtist
drukkinn í veislunni hefði getað kallað fram reiði við einhvern
annan, til dæmis systur mína að hún skyldi giftast öðrum eins
lúða.26 Kenndir (til dæmis líkamlegur pirringur vegna svefnleysis
eða vellíðan eftir góðan málsverð) geta þannig á stundum skapað
25 „Um tilfinningalífið“, bls. 41-42.
26 Sjá R. C. Solomon, „Emotions and Choice" í What is an Emotion?, bls. 307.