Skírnir - 01.09.1994, Page 24
294
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
með sjálfan hrifvakann, það sem á endanum „hrærir geðið“? Er
ekki hugsanlegt að bæði vit- og viljaskilyrðið séu uppfyllt, ég trúi
því að mágurinn hafi tekið bílinn ófrjálsri hendi og mér sé að auki
mjög annt um að eigur mínar séu látnar í friði, en ég fyllist samt
engri reiði: ég sé annaðhvort svellkaldur eða sinnulaus? Varla
væri hægt að lýsa slíku ástandi sem geðshræringu; og er því ekki
reiði-kenndin einnig nauðsynleg? Hér þyrfti að mörgu að hyggja
ef vel ætti að vera. Eg skal þó láta nægja að geta þess að hug-
myndin um hvöt án kenndar er alþekkt, bæði meðal atferðissinna
(sbr. kafla 2) og ekki síður nútíma gervigreindarfræðinga, sem
lagt hafa hausinn að veði fyrir því að mannssálin sé ekki annað en
tölvuforrit. Slíkum hugsuðum þykir ekkert athugavert við að
halda því fram að skákforrit langi alveg jafnmikið til að vinna sig-
ur við taflborðið og lifandi skákmann. Eg er alls ekki hallur undir
þessa skoðun en tel samt ónauðsynlegt að bæta kenndinni við
sem þriðja nauðsynlegu skilyrði geðshræringar. Hvernig er unnt
að koma þessu tvennu heim og saman? Svar mitt er að kenndin
hljóti þegar að vera gefin í eðli viljans sjálfs.32 Hugmyndin um
ófullnægða löngun (þrá, hvöt) án nokkurrar ófullnægju stendur í
raun mjög völtum fæti. Hversu „sinnulaus" getur löngun verið
og samt talist löngun? Ef mér er skítsama þótt mágurinn steli
bílnum hvernig er þá hægt að halda því fram að ég hafi haft löng-
un til þess að honum yrði ekki stolið? Nei, ófullnægð löngun
skapar ófullnægjukennd; það er raunar eina sannleikskornið í
skynkenningunum hér að framan. Hitt er svo annað mál að sú
kennd getur verið bæld eða ómeðvituð og tekið á sig ýmsar ólíkar
myndir, því eins og bent var á eru engin nauðsynleg tengsl milli
tiltekinnar geðshræringar og tiltekinnar kenndar eða kennda.
Annað hugsanlegt gagnrýnisatriði á vitsmunakenningarnar er
að þær hneppi allar skoðanir okkar í sama fang; þeim láist þar
með að gera grein fyrir á hvern hátt þær skoðanir sem liggja geðs-
hræringum til grundvallar skeri sig frá hinum sem við höfum um
32 Ég er þannig £ raun sammála D. Farrell í tímamótagrein hans um afbrýðisemi,
„Jealousy", Philosophical Review LXXXIX (1980), að kennd af einhverju tagi
fylgi jafnan geðshræringum. Ég er aðeins ósammála því að tefla þessu fram
sem „þriðja skilyrði" þeirra, óháðu hinum tveim.