Skírnir - 01.09.1994, Page 30
300
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
hræringarnar) eru þrungnir af vitsmunum, alveg á sama hátt og
vitsmunavélin er knúin áfram af glóð tilfinninga og eðlishvata.
Tvíeðli mannsins, sem skynsemisveru og ástríðuþræls, virðist
blekking ein. Það er engin hending að Solomon leyfir sér að tala
um súrrealismaA0 í þessu sambandi41; heimsmyndin sem fram
sprettur virðist snúast um veruleik þar sem „vor sál gerir eitt úr
heimi og sér“, eins og skáldið kvað.42 Eg ætla að skorast undan
því hér að ræða um þær verufræðilegu ályktanir sem draga má af
vitsmunakenningunum um geðshræringar. Ef til vill eru þær ekki
eins atkvæðamiklar og hér hefur verið gefið í skyn.43 Hitt er þó
jafnljóst að við sitjum uppi með kenningu sem eignar geðshrær-
ingum ótvírætt skynsemiseðli og kallar okkur þar með í vissum
skilningi til ábyrgðar á þeim. En slík ábyrgð er það fjarri viðtek-
inni alþýðuspeki um geðshræringar að við hljótum að velta henni
fyrir okkur um stund.
4. Abyrgð okkar á eigin geðshræringum
Almenn er sú skoðun að okkur verði aðeins eignuð ábyrgð á því
- og þar með það eitt lofað eða lastað - sem er á valdi okkar
sjálfra. Brjóti ég glugga á skartgripaverslun til að láta þar greipar
sópa verð ég kallaður til ábyrgðar á athöfn minni, þar sem hún er
væntanlega niðurstaða yfirvegunar og vals: Ég hef ákveðið að
40 Súrrealistar trúðu á umbreytingu hinna ímynduðu andstæðna rökleysis og
rökvísi í nokkurs konar æðri einingu: algjöran veruleik. Sjá ritgerð mína um
heimspeki súrrealismans, „Höfuðbólið draumsins ríki“, Lesbók Morgunblais-
ins, 24. apríl (1993).
41 Sjá The Passions, bls. 155, 176 og víðar.
42 Vitnað er í kvæði E. L, Masters, „Ur kirkjugarðinum í Skeiðarárþorpi", í þýð-
ingu Magnúsar Ásgeirssonar.
43 Sumar tilfinningar kunna a.m.k. að vera alveg utangátta við alla rökvísi þó að
geðshræringar séu það ekki. Ég andæfi hinni altæku skynsemishyggju Páls
Skúlasonar um tilfinningalífið I grein um bækur hans, „Hin tvísýna yfirveg-
un“, Skírnir 165 (haust 1991), endurpr. í ritgerðasafni mínu, Þroskakostir
(Reykjavík: Rannsóknarstofnun I siðfræði 1992).