Skírnir - 01.09.1994, Page 31
SKÍRNIR
UM GEÐSHRÆRINGAR
301
drýgja þennan glæp, en hefði eins getað ákveðið að gera það ekki.
Öðru máli gegnir ef maður fýkur inn um gluggann í ofviðri eftir
að hafa leitað skjóls fyrir framan hann. Þá er sá maður fráskilinn
ábyrgð á afleiðingunni enda ekki um athöfn hans að ræða í nein-
um eðlilegum skilningi. I versta falli yrði hann hugsanlega kallað-
ur til ábyrgðar vegna þess gáleysis að finna sér skjól á jafnhættu-
legum stað, en ekki í nálægu húsasundi, þó að honum hefði átt að
vera ljóst hvað gerst gæti í rokinu.
Þessi „almenna skoðun" sem ég hef lýst er nánast frumfor-
senda fyrir allri lögspeki og öllu réttarfari á okkar tíð. Hún sækir
ekki aðeins styrk í rit heimspekinga að fornu og nýju, svo sem
Aristótelesar,44 heldur virðist hún runnin flestum múgamannin-
um í merg og bein sem hluti af eðlisgrunni vestrænnar menning-
ar. Þessi skoðun felur ekki í sér afneitun þess að fordómar, lág-
kúra og lestir séu af hinu illa, burtséð frá uppruna sínum.
Stráklingur sem alinn hefur verið upp í Hitlersæskunni og drukk-
ið í sig kynþáttahatur með móðurmjólkinni kemur ugglaust til
með að halda fram forkastanlegum skoðunum. Slíkt er að sjálf-
sögðu miður. En sé ljóst að hann hafi ekki, sakir heilaþvottar, átt
neitt val um hvort hann gerði þær að sínum eða ekki þá er það að
hann skuli halda fram þessum ámælisverðu skoðunum sjálft ein-
ungis vorkunnar-, en ekki ámælisvert. Hann getur enda ekki
talist ábyrgur fyrir skoðunum sínum, að minnsta kosti ekki fyrr
en hann kemst til vits og ára.45
Nú fer að vísu fjarri því að enginn beri brigður á þetta al-
menna viðhorf til mannlegrar ábyrgðar. Fólk getur haft ýmsar
ástæður fyrir slíku andófi: trúarlegar (trú á örlög, náðarútvaln-
ingu o.s.frv.) eða frumspekilegar (harða löghyggju eða þý-
hyggju46). Þannig efaðist séra Hallgrímur ekki um ábyrgð sína á
eigin hrösunum þó að hann teldi sér ekki einu sinni í sjálfsvald
setta iðrunina vegna þeirra! (12. Passíusálmur, 20-21);
44 Ábyrgðarkenningin er útraáluð í smáatriðum í 3. bók Siðfrœði Nikómakkosar
eftir Aristóteles (ýmsar útgáfur).
45 Ég nota hér dæmi frá einum vefengjanda „almenna ábyrgðarviðhorfsins", R.
M. Adams, „Involuntary Sins“, Philosophical Review XCIV (1985).
46 Þýhyggjuhugmyndin er skýrð í ritgerð minni, „Að geta um frjálst höfuð
strokið" í Þroskakostum.