Skírnir - 01.09.1994, Page 35
SKÍRNIR
UM GEÐSHRÆRINGAR
305
Aristóteles er að sönnu enginn existentíalisti - en hann væri
samt fljótur að taka ímyndaða andmælandann hér að framan á
kné sér og segja honum örlítið til. „Astríðugoðsögn" nútímans
væri þannig engu minna eitur í beinum Aristótelesar en Sartres
eða Solomons. I Siðfrœði Nikómakkosar ræðir Aristóteles jöfnum
höndum um siðferðisdygðir og geðshræringar. Kenning hans er
sú að hverjum verði það að list sem hann leikur. Yið verðum rétt-
lát með því að breyta einlægt á réttlátan hátt, öfundsjúk ef við
höfum leyft okkur að öfundast nógu oft út í aðra o.s.frv. Kjarni
málsins er sá að þótt ranglátu og öfundsjúku mennirnir kunni að
vera ófærir um það nú að vinna bug á þessum hneigðum sínum
þá beri þeir ábyrgð á þeim vegna þess að þeim stóð upphaflega til
boða að verða ekki slíkir menn.51 En hvað merkir það að við
verðum réttlát með því að velja leið réttlætisins - hljótum við
ekki þegar að hafa verið réttlát fyrst við ákváðum að velja hana?52
Þetta er mótbára sem Aristóteles veltir sjálfur fyrir sér og svar
hans er ofureðlilegt: Ræktun dygðanna hefst með uppeldinu.
„Það skiptir því ekki svo litlu máli“, segir hann, „að nema ungur
þennan siðinn eða hinn; þvert á móti skiptir það miklu máli, já
raunar öllu máli.“53 Hér má líka minnast orðanna úr Grettlu:
„Engi maður skapar sig sjálfur." En sé raunin þessi erum við þá
ábyrg fyrir hneigðum okkar eftir allt saman? Verðum við ekki að
skrifa þær á reikning foreldra okkar og annarra uppalenda?
Það verður að segjast eins og er að Aristóteles hefði ekki gert
sér neinar grillur um pilta eins og þann sem heilaþveginn var í
Hitlersæskunni. Hann viðurkenndi fúslega að manneskju sem
ekki hefði notið skaplegs uppeldis af neinu tagi í æsku væru allar
bjargir bannaðar; hún yrði vísast „innan ills of fylld“, eins og
Brynhildur Buðladóttir, alla sína daga.54 En áhugi hans beindist
51 Sbr. Siðfrœði Nikómakkosar, 1114a.
52 Sjá sama rit, 1105a.
53 Sama rit, 1104a (lausleg þýð. K.K.).
54 Raunar má þó túlka Aristóteles þannig að hraklegt uppeldi sé ekki nægilegt
skilyrði mannvonsku, þó að það útiloki dygðugt líferni, fremur en gott upp-
eldi er nægilegt skilyrði dygðar. Sjá T. C. Brickhouse, „Roberts on Responsi-
bility for Action and Character in the Nicomachean Ethics“, Ancient
Philosophy 11 (1991), einkum bls. 147.