Skírnir - 01.09.1994, Side 59
SKÍRNIR
HEIMSPEKI LEIÐINDANNA
329
tilvistarlegt þekkingargildi í þeim skilningi að þær sýni hvernig
um okkur er ástatt í heiminum hverju sinni, heldur hafi þær um-
fram það verufrædilegt þekkingargildi vegna þess að þær sýna
jafnframt að við erum í heiminum yfirleitt, þ.e. veru okkar í
heiminum sem slíka. Þegar ég hugsa: „ég vil ekki“, „ég get ekki
meir“, blasir veröldin ekki aðeins við mér í ákveðinni afstöðu til
viljans, heldur lýstur saman veröld og vilja með þeim hætti að ég
rek mig á „að ég er og verð að vera“.31
Áður en ég sný mér að lokakafla þessarar ritgerðar, sem er til-
raun eða öllu heldur svolítil vísbending um hvernig vinna mætti
úr þeim efniviði sem Heidegger lagði til, ætla ég að kynna til leiks
enn einn mikilvægan þátt tilfinninganna sem kemur mikið við
sögu hér á eftir, en það er samband þeirra við tíma. Mannlegar
tilfinningar hafa nefnilega ekki einungis viðfang og vitsmunalegt
inntak, heldur eru þær jafnframt tengdar stöðu viðfangsins í tíma
eða afstöðu þess til tíma. Þannig má heimfæra sérhverja tilfinn-
ingu upp á eina af tímavíddunum þremur: Sorg, söknuður og
heimþrá beinast að fortíðinni, aðdáun, reiði og öfund að nútíð-
inni, ótti, örvænting og von að framtíðinni. I samræmi við það
sem áður sagði um muninn á geðshræringum og stemningum
annars vegar og „hversdagslegum“ og „megnum" stemningum
hins vegar, er tímaafstaða þessara ólíku tilfinningaafbrigða einnig
með ólíku sniði. Tilfinningarnar hafa ekki aðeins ákveðna stöðu í
eða afstöðu til tíma, heldur geta þær einnig verið bein reynsla af
tímanum sjálfum. Hér á eftir ætla ég að freista þess að sýna fram á
að leiðindi eru slík tímatilfinning, sem hefur bókstaflega ekkert
annað viðfang en tímann sjálfan. Greiningu leiðindanna, sem ég
vona að verði sjálf ekki alltof leiðinleg, skipti ég í þrjá hluta: I
fyrsta hlutanum geri ég almenna grein fyrir sambandinu á milli
tíma og leiðinda (1.), þarnæst leitast ég við að gera nánari grein
fyrir tímatengslum leiðindanna (2.), og að endingu huga ég nánar
að leiðindunum sjálfum með því að greina á milli missterkra af-
brigða þessarar tilfinningar (3.).
31 M. Heidegger, Sein und Zeit, bls. 134 o. áfr.