Skírnir - 01.09.1994, Page 87
SKÍRNIR
SANNFRÆÐI ÍSLENSKRA FORNLEIFA
357
sögurnar. Hann rannsakaði þá minjaflokka sem fyrirrennarar
hans höfðu einnig kannað, s.s. kuml, hof og þingstaði. I sjálfsævi-
sögu sinni játar hann að handleiðsla Finns Jónssonar textafræð-
ings og prófessors hafi verið ómissandi við túlkun á fornminjum.
Hann segir hina yfirgripsmiklu þekkingu Finns á fortíð Islands -
á heiðnu helgihaldi, þinghaldi, kaupskap, siðum og venjum - hafa
varpað ljósi á það sem þeir sáu og fundu með uppgrefti.15
Stærsta rannsókn Bruuns var unnin með aðstoð Finns Jóns-
sonar að Hofsstöðum í Mývatnssveit 1908. Þar grófu þeir í stóra
tóft, sem samkvæmt munnmælum hafði verið hof í heiðni. Lýs-
ingar á hofbyggingum eru afar takmarkaðar í Islendingasögum,
en þó kemur fram að hof virðast hafa verið aflöng hús með afhýsi
fyrir goðin við annan enda.16 A Hofsstöðum fundu þeir ekki
helgigripi eða sérstök einkenni er bentu til þess að hér væri fund-
ið hof, utan þess að tóftin er aflöng og er afhús a.m.k. við norður-
enda og jafnvel á vesturhlið. I túlkun sinni treystu þeir félagar á
munnmælin og örnefnið, og jafnframt á að lögun tóftarinnar væri
ekki í ósamræmi við það sem gefið var til kynna í sögunum. Bru-
un og Finnur fögnuðu árangri rannsóknanna og gáfu uppgraftar-
skýrslur sínar út í mörgum vísindaritum og á nokkrum tungu-
málum.17 Fram eftir þessari öld var Hofsstaðatóftarinnar getið í
öllum helstu yfirlitsritum um víkingaöld sem dæmi um hof frá
þeim tíma. Finnur Jónsson var ekki í minnsta vafa um gildi rann-
sókna á minjum sögualdar fyrir textafræði. I greininni „Sannfræði
íslenzkra sagna“ kveður hann upp dóm sinn: „Ekkert getur betur
sannað eða ósannað frásagnirnar en fornfræðisrannsóknir."18
Matthías Þórðarson (1877-1961) varð þjóðminjavörður árið
1907 og rannsóknir hans voru mjög í anda Sigurðar Vigfússonar
15 Daniel Bruun: Fra de sidste tredive aar (Kaupmannahöfn 1927), 179.
16 Sjá t.d. Eyrbyggja sögu: íslenzk fornrit IV, Einar Ól. Sveinsson og Matthías
Þórðarson gáfu út (Reykjavík 1935), 8-9.
17 Daniel Bruun og Finnur Jónsson: „Om hove og hovudgravninger paa Island.“
Aarböger for Nordisk Oldkyndighed og Historie 1909, 245-316; „Undersög-
elser og Udgravninger paa Island 1907-09.“ Geografisk Tidsskrift 20 (1910),
302-15; „Finds and excavations of Fleathen Temples in Iceland.“ Saga Book of
the Viking Club 7 (1911), 25-37.
18 Finnur Jónsson: „Sannfræði íslenzkra sagna.“ Skírnir 93 (1919), 183-192.