Skírnir - 01.09.1994, Page 139
SKÍRNIR
SKAPANDI ENDURTEKNING
409
aðferð til að komast að hinu sanna og rétta, aðferð sem gerði
okkur óháð öllum fyrri skoðunum, öllum venjum og öllu
fordæmi.6
Niðurstaðan blasir við: Beiting skynseminnar á að tryggja
frelsi okkar undan oki hefðbundinnar menningar. Hún á að gera
mönnum kleift að öðlast hlutlæga skoðun á hverju sem vera skal,
hleypidómalausa hugsun, hugsun sem lætur ekki stjórnast af
neinum fyrirframgefnum dómum eða sannfæringu. A meðan
þessi boðskapur er fluttur í samfélagi fræðimanna, sem eru að
rýna í ráðgátur um hreyfingu hlutanna eða starfsemi hjartans,
virðist hann vera fullkomlega sjálfsagður og eðlilegur. Hann tjáir
hugsjón og kröfu hinnar frjálsu skynsemi sem vill skilja alla
skapaða hluti á sínum eigin röklegu forsendum. Fræðimenn
verða að losa sig undan valdi innrætingar og viðtekinna hefða.
Þeir eiga ekki og mega ekki vera fordómafullir í rannsóknum sín-
um. Og þeir hafa jafnframt sínar opinberu leiðir til að leggja hug-
myndir sínar og kenningar fram í ræðu og riti og fá gagnrýni
annarra.7
Málið horfir öðruvísi við þegar beita skal gagnrýninni hugsun
á opinberum vettvangi þjóðfélagsins. Með því er átt við að efnt sé
til rökræðu á þeim stað eða á því sviði þaðan sem á að heyrast um
þjóðfélagið allt. Alþingi er slíkur staður svo og fundir sveita-
stjórna og stjórnmálaflokka, en fjölmiðlar og ýmiss konar mál-
fundir, þar sem rætt er um landsins gagn og nauðsynjar, tilheyra
líka hinu opinbera sviði. Hinn opinberi vettvangur er þannig tví-
skiptur: annar hluti hans er í beinum tengslum við stjórnmála-
valdið, en hinn ekki. Hið opinbera svið greinir sig frá einkasvið-
inu sem líka er tvískipt: annar hlutinn er einkalíf fólks, hinn hlut-
inn það sem Kant kallar „störf í þágu samfélagsins“. Þegar Kant
talar um einkavettvang til aðgreiningar frá opinberum vettvangi
nefnir hann raunar eingöngu þetta síðarnefnda, það er störf
6 Sjá OrðræSu um aðferð, Magnús G. Jónsson þýddi. Reykjavík 1991. Rit þetta kom
út á frönsku 1637. Descartes er talinn upphafsmaður nýaldarheimspeki og er jafn-
framt sá sem öðrum fremur hefur mótað franska heimspeki.
7 Þessar opinberu leiðir eru málþing, fyrirlestrar og málstofur ásamt fræðibókum og
tímaritum.