Skírnir - 01.09.1994, Page 142
412
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
Allt þetta hljómar kunnuglega. Andi upplýsingarinnar svífur
vissulega yfir nútímanum, að minnsta kosti í viðleitni manna til
að ná tæknilegu valdi á hlutunum. Nútíminn einkennist af því
sem Max Weber kallaði „rökvæðingu" þjóðfélagsins, viðleitni til
að beita rökvitinu til að úthugsa og skipuleggja í þaula líf manna
og athafnir.8 Oft eru það þeir sem aldrei hafa leitt hugann skipu-
lega að forsendum nútímans sem eru hvað ákafastir í því að fram-
fylgja þessum anda upplýsingarinnar.
Þrennt að minnsta kosti varð til þess strax á 18. öld að kynda
undir efasemdum um ágæti upplýsingar. I fyrsta lagi virtist hin
frjálsa, gagnrýna skynsemi oft ekki sjást fyrir og vekja efasemdir
um gömul og góð gildi án þess að hafa nokkrar gildar ástæður til
þess og án þess að geta sannfært menn um að nokkuð annað og
betra kæmi í staðinn. I öðru lagi virtist hin frjálsa, gagnrýna
skynsemi oft vera furðu gagnrýnislaus á sjálfa sig og forsendur
sínar. I reynd væri hún sjálf miklu háðari ýmsum venjum og
hefðbundnum reglum á sviði vísinda og fræða en hún sjálf gerði
sér ljóst eða væri fús til að viðurkenna. I þriðja lagi virtist hin
frjálsa, gagnrýna skynsemi hafna mikilvægi og gildi tilfinninga
manna og langana sem stýra athöfnum þeirra ekki síður en köld
rökvísin.
Þessa gagnrýni á anda upplýsingar má draga saman í eina
megin staðhæfingu: Upplýsingarhugsunin heldur fram óraun-
hæfri, ef ekki beinlínis falskri mynd af manninum og því lífi sem
hann getur og vill lifa. Maðurinn er ekki blóðlaus skynsemisvera
sem hannar líf sitt eftir forskriftum rökvísrar skynsemi, heldur
lifandi tilfinningavera sem lætur stjórnast af botnlausri löngun og
þrá eftir sælu og samruna við lífskraftinn sjálfan, hvar sem hann
er að finna: í náttúrunni, í þjóðarsálinni eða hjá guðdómnum.
Hér hljómar rödd rómantískrar hugsunar sem vill sjá mann-
inn og veruleika hans í órofa tengslum við veruleika handan
8 Sjá Max Weber, „Starf fræðimannsins“, Mennt og máttur, Helgi Skúli Kjart-
ansson þýddi, Reykjavík 1973, s. 87-88. Orðið „rationalisering" (rökræðing)
þýðir Helgi sem „framsókn skynseminnar", en það er líka iðulega þýtt á ís-
lensku sem „hagræðing". Það orð skortir þá skírskotun til rökvísi sem erlenda
orðið felur í sér.