Skírnir - 01.09.1994, Page 146
416
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
sviðum menningarinnar og reyna að draga fram altækar forsend-
ur fyrir skynsamlegri breytni, samræðum og samskiptum manna
í samtímanum. Þá mun smám saman koma í ljós hvað það er í
hefðum okkar og siðum sem hefur varanlegt gildi og ástæða er til
að varðveita í því skyni að gera mannlífið betra eða bærilegra.
Hér siglir Habermas ekki aðeins í kjölfar Kants, heldur ekki
síður eftirmanna hans, þeirra Fichtes, Schellings og Hegels. Hann
virðist því gera sér ljósa grein fyrir annmörkum þess að hefja sig
yfir alla sögu og einblína á mátt hreinnar rökvísi. Um leið og
hann flytur af krafti boðskap upplýsingarinnar virðist hann ekki
síður innblásinn af anda hinnar rómantísku hugsunar sem viður-
kennir fyllilega vald hefðarinnar og sögunnar yfir viðhorfum
manna. Hin óbeina ásökun Foucaults að Habermas ætli sér að
uppgötva forskilvitlegar forsendur gagnrýninnar skynsemi hand-
an allrar sögu á, samkvæmt þessu, alls ekki við hann. Ennfremur
er sjálft skynsemishugtak Habermas ekki eingöngu fólgið í rök-
vísi og hagræðingu, heldur ekki síður í siðviti sem viðurkennir
mikilvægi samræðunnar og mannlegra samskipta.
Lítum aftur á afstöðu Foucaults. Gagnrýni hans er skýr: Hin
rökvísa skynsemi upplýsingarinnar hefur sjálf átt þátt í því að
leggja nýja fjötra á fólk, viljað knýja það til að hugsa eftir braut-
um fræða sem það hefði engin tök á. Franska byltingin árið 1789
er ef til vill skýrasta dæmið um þetta. Hugsjónir byltingarinnar
um frelsi, jafnrétti og bræðralag eru hugsjónir upplýstrar skyn-
semi sem vill að rökvísin fái að ráða gangi mála í heiminum.
Skynsemin á að ríkja, öll eigum við að lúta henni því að öll erum
við jöfn í ríki hennar. En þessi draumur varð að martröð, upplýst
skynsemin ætlaði sér um of, missti tökin á veruleikanum og hafn-
aði í blóðsvaði fallaxarinnar.12 Vandinn varð sá að endurheimta
sanna upplýsingu sem er á varðbergi gagnvart eigin ofstopa og
kann að takmarka sig við viðráðanleg vandamál.
12 Lærdómurinn sem ótal franskir menntamenn hafa dregið af byltingunni er að
hún hafi mistekist og verið dæmd til að mistakast sem eiginleg frelsun mann-
kyns. Sjá Vincent Descombes, The Barometer of Modern Reason: On the
Philosophies of Current Events, Oxford 1993, s. 68 {„we reason in the wake of
the (French) Revolution’s failure to liherate humanity“).