Skírnir - 01.09.1994, Page 159
SKÍRNIR
AÐ SYNGJA Á ÍSLENSKU
429
Það sem kalla má aðferð skáldsins tekur til alls þess sem leiðir
til þessarar niðurstöðu, að sálmarnir hljóma þannig, og óþarft er
að hugleiða hvort það eru allt meðvituð brögð eða einfaldlega
kækir einkennilegs dansklitaðs eyra sem þannig „ber túnguna"
ósjálfrátt. Jafnvel kunnáttuleysi verður að aðferð þegar það er
ráðandi um útlínur listaverks. Bragartök Hallgríms hafa oft verið
misskilin en fráleitt væri þó að væna hann um kunnáttuleysi.
Vafann um hvað sé ásetningur og hvað ekki læt ég öðrum eftir, en
bendi á orð úr inngangi skáldsins sem sýna hversu umhugað því
var að útkoman væri nákvæmlega svona: „En þess er ég af guð-
hræddum mönnum óskandi, að eigi úr lagi færi né mínum orðum
breyti". Skyldi hann hafa grunað að einhver kynni að freistast til
að „lagfæra" hrynjandina?
Með því að taktslag stuðlanna verður reglulegra í nýmálinu en
áður slaknar mjög á kröfunni um merkingarlegan þunga stuðlaðs
orðs, einkum í styttri vísuorðum. Takturinn þarf ekki stuðning
merkingarinnar, svo sjálfstæður sem hann er. Stuðlar falla oft á
veigaminni orðflokka, fornöfn, atviksorð eða jafnvel forsetningar.
Hinni fornu reglu um að stuðlað orð eigi helst að vera nafnorð
eða lýsingarorð, og sjaldnar sagnorð, hefur verið misjafnlega fylgt
eftir skáldum og tímabilum, þótt flest skáld hefðu í orði kveðnu
tekið undir hana. Oft vissi höndin betur og fann að í glímunni við
formið gat hlýðni við regluna verið óþarft og skaðlegt keppikefli.
Merkingarskripla gat verið eitt af loftopum bragarins.
Fylgni við regluna er í samræmi við hugmyndir skáldanna um
hlutverk bragarins. Sumir hafa talið sig endurheimta forna reisn
hans með því að virða hana, sumir virðast ekki vita af henni,
fylgja henni af vana eða brjóta af kunnáttuleysi, enn aðrir ganga
vísvitandi gegn henni.45
45 Það er t.d. augljóslega úthugsað að meir en fjórðungur stuðlaðra orða í
Annesjum og eyjum Jónasar eru atviksorð og aðrir veikir orðfiokkar, en
þekktustu kvæði hans bera gerólík merki. Með þessu bragði myndar skáldið
tóntegund sem er einstök í kvæðahefðinni, en sem menn hnjóta gjarnan um.
Við verðum margs vísari um sálarlíf skáldanna við það eitt að athuga á hvaða
orðflokkum þau eru gjörnust að stuðla. Hin lauflétta, og tíðum bernska, fer-
skeytla Þorsteins Erlingssonar myndast við mikla stuðlun á fornöfnum og
veikari flokkum, og eru samtengingar engin undantekning. f lengri línum er