Skírnir - 01.09.1994, Síða 162
432
ATLI INGÓLFSSON
SKÍRNIR
línum sínum hrynjandi talaðs máls þótt þær eigi að fylgja bragar-
hætti, og verður ekki hjá því komist að líkja honum við annan
frægan prédikara sem uppi var litlu fyrr og þekktur varð af sömu
iðju, John Donne á Englandi. En meðan skriplur og steytur virð-
ast hluti af enskri kveðandi eru þær undantekningar í íslenskunni,
og áhrif þeirra sterkari. Þær eru undirstaðan í sigri Hallgríms á
segulvandanum.
Hið stöðuga misgengi framburðarins við braginn sýnir að fyr-
ir Hallgrími er sem bragreglurnar séu einungis lágmarksskilgrein-
ing formsins, en formið sjálft verður til úr raunverulegum hljómi
línanna, og þar er merkingin alltaf í forgrunni. Til að skilja hljóð-
fallið þurfum við að skilja efnið. Því hrærist tvenns konar tími í
ljóðinu: Tíminn sem líður, sem helgast af taktslagi háttarins, og
óræður tími merkingarinnar, eða sálrænn tími, sem líður innan
hins raunverulega tíma og magnast við samanburðinn við hann.
Þetta veldur nokkrum vanda fyrir þann sem les sálmana upp-
hátt. Hvernig á að bera fram skriplu eða steytu? Ekkert algilt svar
er tiltækt. Algerlega fer eftir aðstæðum hversu mikla áherslu má
setja á upphaf orðsins og hversu mikla á bragrisið. Heyrst hefur í
lesurum sem virðast njóta þess að láta braginn afbaka venjulegar
áherslur málsins, einkum á rímorðum
u-u -u-u - u
(t.d. „fang-els-i“, „must-er-in-u“, ,,harm-þrung-inn“). Að sjálf-
sögðu verður vart aukaáherslna í orðunum, en þær ættu síst að
vera sterkari en venjulegar upphafsáherslur. Ofgar í hina áttina,
að lesa sálmana nánast eins og óbundið mál, eru síst fýsilegri, því
bæði eyða þær tilfinningu fyrir ljóðformi, og hljómur orðanna
verður venjulegri en efni standa til. Þau fá ekki þá merkingu sem
áreksturinn eða samvinnan við háttinn ljá þeim. Hafa verður hug-
fast að ljóð er hvorki hljóðfallið eitt né einungis texti sem lesa má
án tillits til rytmans. Hljómur kvæðisins veltur ekki á tungunni
einni heldur á skilgreiningu bragarins. Með einum saman tækjum
hans má fletja tunguna út, eða toga hana og teygja; og einfalda
eða flækja, létta eða þyngja framburðinn. Gefa má málinu sjálfu
sérstakan hljóm með óreglulegum áherslum, jafnvel þannig að
bragurinn villi stundum á sér heimildir. Þannig líkist hljómur