Skírnir - 01.09.1994, Síða 171
SKÍRNIR
AÐ SYNGJA Á ÍSLENSKU
441
sigur á segulvandanum. Þetta felur í sér tvær mikilsverðar nýj-
ungar í skörun máls og bragar. Annað er, að nú skilyrðir bragur-
inn sem undir liggur lestur kvæðisins á nýjan hátt, hitt, að hægt er
að mynda tilfinningu fyrir rytma sem skarast við áherslur málsins
og orðalengd, þannig að rytmi og orð séu tvær skýrt aðgreindar
raddir. Hið síðarnefnda á einkum við um notkun öfugra, eða
rísandi bragliða. Þeir gætu virst íslenskunni framandi ef ekki væri
vitað, að bragliður þarf síður en svo að samsvara orði. Hann get-
ur hafist og endað hvar sem er í orðinu. Þannig myndar Jónas
stundum hreinan jambískan rytma, sem hlýtur oft að liðskiptast í
orðunum miðjum: 48
u-u-u-u - u — u
Nú and-ar suðr-ið sæl-a vind-um þýð-um
Þessi lína tapar talsverðu af þokka sínum sé hún lesin sem
venjulegur áherslubragur með forlið.49
Ef litið er á fyrrnefnda nýmælið, áhrif braggrindarinnar á
framburðinn, þá verður það til þess að orðin fá lit eftir stærð
bragliðarins sem undir liggur. Við hlustum ekki lengur aðeins eft-
ir því hvort áherslan er á sínum stað, heldur hvernig hvert einasta
atkvæði fellur að grindinni. I íslenskunni hlýtur grind hrynbragar
stundum að teygja á atkvæðum sem annars væri rétt tiplað á, og
stundum að stilla upp léttvægum orðum sem fullgildum hluta
bragarins, orðum sem íslendingar hneigjast til að lesa sem forliði.
Að baki textans búa skýrt mörkuð hólf sem hægt er að leika á í
ótal tóntegundum - upphafinn, blíðan, léttan eða jafnvel kald-
hæðinn tón. Athugum þetta nánar.
48 Á fræðimáli eru oft notuð latnesk heiti bragliðanna og eru þeir helstu: Jambus
(u - ; öfugur tvíliður), trocheus (- u ; réttur tvíliður), spondæus (— ; sléttur
eða langur tvíliður), dactylus (- u u ; réttur þríliður) og anapestes (u u -; öf-
ugur þríliður). Helgi Hálfdanarson hefur íslenskað þessi heiti svo: „Jambi,
tróki, spondi, daktíli og anapesti."
49 Kvæðið er þó ekki byggt á hrynbrag. Það er ellefukvæð sonnetta, sumsé sam-
stöfubragur, þar sem fyrsta atkvæðið hlýtur að teljast með í hrynmynd lín-
unnar (en innan línu samstöfubragarins getur skáldið myndað mynstur sem
greina má í bragliði).