Skírnir - 01.09.1994, Page 203
SKÍRNIR
MANNRÉTTINDI
473
árið 1859 hafi Alþingi unnið frækinn sigur þegar konungur féllst
á að undirrita lög fyrir Island á íslensku jafnt sem dönsku. „Hin
almenna stjórnarfrelsis-regla er því hér viðurkennd af konungi
sjálfum, án þess að tekin sé fram hin dönsku grundvallarlög, sem
ekki voru gildandi á Islandi, eða látið svo sem þau væru í gildi“
(47). Og Jón heldur áfram:
Ef vér tökum saman hin helstu mál, sem snerta landsréttindi vor og
þjóðarréttindi, þá hafði alþingi nú á fimmtán árum áunnið almennt versl-
unarfrelsi við allar þjóðir, með viðunanlegum kjörum, kosningafrelsi til
þjóðfundar og alþingis, frjálsleg lög um prentréttindi, rekaréttindi handa
bændum, sem þeir höfðu verið sviptir um hálft þriðja hundrað ár, og nú
að síðustu rétt þann, að fá löggjöf landsins staðfesta með undirskrift
konungs og ráðgjafa hans, í stað þess að verða að láta sér lynda óstaðfest-
ar útleggingar. (48)
Þessi orð Jóns sýna nokkuð skýrt vægi þátta í réttinda- og
frelsisbaráttu Islendinga. Prentfrelsi er eina atriðið í þessari upp-
talningu sem rekja má til mannréttindakafla dönsku stjórnar-
skrárinnar.
Grein Jóns í Andvara er fyrst og fremst skrifuð sem gagnrýni
á Stjórnarskrd um hin sjerstaklegu mdlefni Islands frá 5. janúar
1874, en hana færði Kristján konungur IX. íslendingum seinna
sama ár. Jón hefur ýmislegt við stjórnarskrána að athuga en þó er
honum líklega verst við að Alþingi hafi hvorki verið haft með í
ráðum við gerð hennar né verið leitað eftir samþykki þess um
efni hennar þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar konungs um slíkt. „Það
verður því ekki annað sagt, en að stjórnarskrá þessi sé valdboðin,
og það að óþörfu, því að alþing hafði vísað á fleiri aðra vegi, sem
lágu opnir fyrir stjórnina, ef hún vildi meta réttindi vor fyllilega
og ekki misbjóða hvorki þjóð vorri né alþingi“ (113).
Ekki skal gert lítið úr aðfinnslum Jóns, en þegar athugasemdir
hans við mannréttindakaflann eru lesnar verður ekki betur séð en
honum sé þar flest að skapi. Hann hnýtir þó í nokkur atriði eins
og það, að sleppt hafi verið hluta af 48. gr. sem stjórnin (danska)
hafði sjálf stungið upp á í stjórnarskrárfrumvarpinu frá 1867, um
að engan megi draga frá sínu löglega varnarþingi. Jón gerir einnig
athugasemd við 57. gr. um landvarnir, 58. gr. um rétt sveitarfélaga