Skírnir - 01.09.1994, Page 210
480
ÁLFRÚN GUNNLAUGSDÓTTIR
SKÍRNIR
skilning á heiminum, hafi hann haft eitthvað slíkt bak við eyrað.
Annarra er að dæma um það. Listamaður skapar verk og sé hon-
um annt um list sína, lætur hann hana eina „tala“. Persóna hans
sjálfs, skoðanir hans á eigin verkum eða ætlanir á því sviði, hljóta
að falla í skuggann af list hans. Þess vegna getur höfundur ekki
svarað spurningum eins og þeim sem Páll leggur fyrir hann, því
að beinlínis er til þess ætlast að hann stígi fram og verji eigin list
og gerðir. Slíkt gengi þvert á þessa grundvallarsiðfræði allra lista.
Með þessu er ég ekki að segja að rithöfundur geti ekki haft,
eins og aðrir, skoðanir á starfi sínu, á bókmenntum yfirleitt, á
öllu milli himins og jarðar. En tjái hann sig um það á opinberum
vettvangi, hlýtur hann að gera það með tilliti til fleiri þátta og al-
mennari en sinna eigin verka.
Þótt ekki sé hægt að svara spurningum Páls, er margt annað í
grein hans sem vekur til umhugsunar og vert er að velta fyrir sér.
Af þeirri ástæðu ákvað ég, þótt seint sé, að grípa til pennans.
í upphafi máls síns líkir Páll rithöfundi við foreldri eða kennara.
Mér er til efs að sú samlíking standist. Foreldri er í daglegu sam-
bandi við barn sitt eða börn, kennarinn hittir nemendur sína
væntanlega nokkrum sinnum í viku, ef ekki á hverjum degi. Og
það sem meira er, börn eða nemendur bregðast með einhverjum
hætti við foreldri eða kennara. A hinn bóginn liggur í augum
uppi að meðan á samningu verks stendur er rithöfundurinn einn,
og vísast skiptir sér enginn af því sem hann er að gera. Ekki fyrr
en verkinu er lokið taka lesendurnir við, og þá fyrst öðlast það
„líf“, ef svo má að orði komast, því að ekkert verk „lifir“ án ein-
hvers lesanda. Lesendurnir bregðast svo við með ýmsu móti.
Vera má að leikritaskáld „heyri“ viðbrögðin á frumsýningar-
kvöldi og standi að þessu leyti nær viðtakendum verks síns en
ljóðskáld og skáldsagnahöfundur. Munurinn er þó varla mikill.
Leikhúsgestir og lesendur eru ekki fyrir höfundum samstæður
hópur, eins og börn eru í fjölskyldu eða nemendur í bekk. Auk
þess sem börn og nemendur bera nöfn og eru einstaklingar. Það
eru lesendurnir auðvitað líka, en höfundurinn þekkir þá ekki per-
sónulega, nema kannski örfáa, og miðar sjaldnast verk sín við þá.
Lesendur eru því ósamstæð heild sem erfitt er að skilgreina. Og