Skírnir - 01.09.1994, Page 211
SKÍRNIR
AÐ BLEKKJA OG BLEKKJA EKKI
481
sem hópur stígur hann ekki fram, eins og kann að gerast með
börn og kannski enn frekar nemendur. Til að mynda er ritdómur
ekki skrifaður af hópi. Líking Páls er því um margt óheppileg, en
þó skal tekið fram að hann bregður henni upp til að benda á sam-
bærilegar skyldur, siðferðilegar skyldur þessara þriggja aðila, for-
eldra, kennara og rithöfunda. Að skyldunum kem ég síðar.
Lesendur er engan veginn hægt að setja á bekk með börnum
og nemendum. Hversu mikið jafnræði sem reynt er að láta gilda á
heimili eða í bekk, er foreldrið foreldri og kennarinn kennari. Og
bæði sitja við stýrisvölinn, hafa visst vald og verða að hafa það.
Jafnræðið getur því ekki orðið algjört. Þótt höfundur viti mest
lítið um lesendur sína, er hann engu að síður að miðla einhverju
til annarra, en gerir það auðvitað ekki í skjóli „valds“ eða yfir-
burða. Vissulega gerir höfundur kröfur til lesenda sinna og þeir
til hans, en þrátt fyrir það verður að ríkja með þeim jafnræði. Án
þess gæti engin listræn miðlun átt sér stað.
Spyrja mætti sig til hvers fólk lesi skáldskap. Allir vita að hann
er skrök og þykjustuleikur. Hvers vegna í ósköpunum vilja menn
láta skrökva að sér? Og það með ánægju?
Gagnstætt því sem margir halda er ekki létt verk að lesa skáld-
skap, það krefst einbeitingar og þjálfunar sem aðeins fæst með
lestri. Og hver og einn hagar lestrinum eftir því hve vanur eða ó-
vanur hann er. Lestrarhestur gerir sér fljótt grein fyrir að skáld-
skapur er flókið fyrirbæri og innviðir hans liggja ekki í augum
uppi. Hið einfalda form lesturs þekkja þó flestir. Kynnast því
jafnvel á unga aldri, að þegar þeir opna bók, við skulum segja
skáldsögu, hættir þeim til að gleyma sér. Ganga inn í veröld sem
heldur þeim föngnum og eru svo ekki í rónni fyrr en þeir vita
hvernig atburðir hafa verið til lykta leiddir. Hvað varð um per-
sónurnar sem urðu á vegi þeirra meðan á lestrinum stóð? Þetta
eru glettur skáldskaparins. Hver höfundur leitast við með ein-
hverju móti að fanga hug væntanlegs lesanda. Og til þess beitir
hann brögðum.
Einnig má nefna að takmörk skáldskapar eru lítil miðað við
mannlífið sem er aðeins eitt, en kannski vildum við hafa níu líf
eins og kötturinn. I skáldskap er hægt að „lifa“ fjölskrúðugu lífi,
kynnast ýmsu sem mann óraði ekki fyrir að væri til og gæti ef til