Skírnir - 01.09.1994, Page 215
SKÍRNIR
AÐ BLEKKJA OG BLEKKJA EKKI
485
Hvað varðar athugasemd Páls um heiminn allan sem „svið
ímyndunar," verður það atriði tæpast lagt skáldsagnahöfundum
til lasts. „Imyndunin" er ein af forsendum skáldskapar og einmitt
á því „svæði" mætast höfundur og lesandi. Kannski er ekki úr
vegi að minna á að Voltaire hafði „heiminn" undir sem svið
ímyndunar þegar hann skrifaði Birting.
I grein sinni minnist Páll á sannleikann, eins og fram kemur í
tilvitnun hér að framan. Um það atriði segir hann á öðrum stað:
Hér tel ég að rithöfundar hafi ærið verk að vinna, því að þeir ráða yfir
tæki sem þarf til að takast á við vandann. Þetta tæki er frásögnin, sem rit-
höfundurinn getur að sjálfsögðu beitt til góðs eða ills, til að falsa eða
Ijúga eða til að leiða hið sanna og rétta í ljós. (bls. 432)
Eins og fyrr segir er skáldskapur skrök, þótt hann búi yfir al-
mennum sannindum. Þetta hljómar líkt og þversögn en er það í
raun ekki. I skáldskap koma menn sér ekki „beint að efninu“,
eins og stundum er gert í ritgerðum eða fræðigreinum. Flestallt er
umorðað, jafnvel vafið í hjúp myndmáls, ótal þræðir og mynstur
spinnast og boðið er upp á leiki hugans. Leikur hugans er eitt af
því sem gleður mann sem lesanda. Þessu hættir mörgum til að
gleyma. Sá leikur er þó jafn alvöruþrunginn og leikur barna. Þar
sem talað er utan að hlutunum og sjaldnast gert út um þá, fæst
ekki „ákveðin niðurstaða". Þess vegna er hið sanna í skáldskap
nánast jafn margbreytilegt og bækurnar eru margar. I þeim efn-
um er enginn stórisannleikur til. Það orkar því tvímælis að tala
um „hið sanna og rétta“ eða „bera sannleikanum vitni“ þegar
skáldskapur er annars vegar, þótt hann eigi sér stoð í mannlegum
veruleika eins og Páll bendir réttilega á. Skáldskapur er skrifaður
af mönnum, og erfitt er að ímynda sér að þeir geti sótt til annars
veruleika en þess mannlega. Imyndunaraflið er einnig hluti af
sama veruleika. Það er þó sjaldnast óbeislað, gagnstætt því sem
stundum heyrist eða sést á prenti, bæði hér á landi og annars
staðar. „Fantasía" er næstum alltaf beisluð, eins og vel sést á verk-
um þeirra Rabelais og Gabriel García Márquez. Eitthvað er bogið
við þá hugmynd að fantasían ryðji sér braut eins og stórelfur, eft-
ir að hafa opnað hugargáttirnar upp á gap, og þurfi ekki annað en