Skírnir - 01.09.1994, Page 216
486
ÁLFRÚN GUNNLAUGSDÓTTIR
SKÍRNIR
fylgja straumnum eftir. Væri það gert í orðsins fyllstu merkingu
yrði útkoman lítið annað en bull. Jafn fáránlegt væri að halda því
fram að skáldsögur sem skrifaðar eru í raunsæisanda geri lítið
annað en „líkja eftir“ raunveruleikanum. Þær þurfa ekki síður en
aðrar sögur að styðjast við fjörugt ímyndunarafl. Það kemur því
víða við og er til staðar í fleiru en „fantasíum." Með þessu er ég
engan veginn að segja að í grein sinni stuggi Páll beinlínis við
ímynduninni, en eitthvað er honum í nöp við endalausa vefinn
sem hvorki tekur mið af rúmi né tíma. Rétt eins og höfundinum
sé það eitt í mun að hvekkja lesendur. Væri ekki nær að fikra sig
burt frá höfundinum og snúa athyglinni að textanum, spyrja sig
hvers vegna sé verið að þessu? Eða til hvers? Þeirrar spurningar
spyr Páll sig varðandi tilgang fagurbókmennta. Ætti höfundurinn
að huga að því, áður en hann sest niður til að skrifa, að hvaða
gagni verk hans geti orðið, hvað læra megi af því?
Löngum hefur verið deilt um tilgang bókmennta, og voru þær
deilur hatrammar á meginlandi Evrópu á 16. og 17. öld. Engum
kom þó til hugar að nema burtu skemmtanagildi skáldskapar.
Skemmtunin var meira að segja sett ofar gagnseminni. Skáldskap-
ur átti fyrst og fremst að veita mönnum ánægju, en jafnframt vera
uppbyggilegur (Spánverjar kölluðu það deleitar aprvovechando).
Hið sama var uppi á teningnum á sjálfri lærdómsöldinni, þeirri
átjándu. Á þessum öldum var gagnsemi skáldskapar einkum trú-
arlegs eða siðfræðilegs eðlis. Hins vegar tekur gagnsemin á sig
nokkuð aðra mynd þegar kemur fram á nítjándu öldina, og áhrif
trúarbragða dvína en vegur vísinda af ýmsum toga fer vaxandi.
Og auðvitað hrifust höfundarnir af kalli tímans, að minnsta kosti
sumir þeirra. Raunveruleikinn og samfélag manna varð viðfangs-
efni margra, þótt ekki gleymdu þeir einstaklingnum. Má þar
nefna franska skáldsagnahöfundinn Honoré de Balzac sem var að
ýmsu leyti frumkvöðull á þessu sviði og gætti áhrifa verka hans
víða um lönd. Annar höfundur franskur, Emile Zola, hafði einnig
allnokkur áhrif á skáldsagnagerð síns tíma, og tók sumpart upp
þráðinn þar sem Balzac skildi við hann, en spann úr honum á
sjálfstæðan hátt. Eins og alkunnugt er voru ekki allir sama sinnis
og Balzac eða Zola og settu á oddinn tilfinningar, hið óræða í