Skírnir - 01.09.1994, Page 219
SKÍRNIR
AÐ BLEKKJA OG BLEKKJA EKKI
489
Birtingur hefur á hinn bóginn margt annað til að bera sem hrífur
hugann. Svo að ekki sé minnst á ritsnilld Voltaire og þá íróníu
sem einkennir þetta verk hans, og magnar að vissu leyti upp
skelfingu en dregur jafnframt úr þunga „boðskaparins". Skáld-
verk verða að hafa margt til að bera og líkt og rithöfundar fyrri
alda gera höfundar samtímans út á margbreytileikann. Sé boð-
skap að finna í verkum þeirra er hann vísast rækilega falinn. Og
það er lesandans að finna hann. Kann þá að reyna á sköpunar-
hæfileika hans, hæfileika til að tengja og sjá samhengi. En það á
auðvitað við um allan lestur.
Þegar reynt var á 18. öld, og enn frekar á öldinni sem leið, að
taka „raunveruleikann“ inn í bókmenntirnar, var það vissulega
byltingarkennd hugmynd. Og skáldsaga var gjarnan álitin góð
eða vond eftir því hversu vel eða illa tókst að „endurspegla" í
henni raunveruleikann. Fræðimenn síðustu aldar á bókmennta-
sviðinu, og reyndar vel fram á þessa öld, voru önnum kafnir við
að leita að fyrirmyndum persóna í skáldsögum, sem þeir töldu að
„endurspegluðust“ í þeim. Þeir álitu, að því er virðist, að með
þessu kæmust þeir að „róturn" skáldskaparins. Hvað raunveru-
leikann varðar, virðist Páll hafa eitthvað svipað í huga, nema hann
talar ekki um endurspeglun, heldur „endurvinnslu."
Rithöfundurinn er endurvinnsluverksmiðja allrar þeirrar lífsreynslu sem
mannfólkið verður fyrir og ástæða kann að vera að nýta sér í lífsbar-
áttunni. Hans eigin reynsla er því aðeins marktæk og nýtileg að hann
finni hana hljóma eða ríma saman við reynslu annarra; og reynsla ann-
arra er einungis marktæk og nýtileg þegar honum tekst að endurskapa
hana í huga sér og miðla henni sem hluta af sjálfum sér.
(bls. 427, leturbr. mín)
Fram á 19. öld var raunveruleikinn naumast á dagskrá þegar
rætt var um skáldskap. Enda álitið að milli þeirra væri djúp gjá.
Þegar Don Quijote lagði af stað til að hrinda í framkvæmd hug-
sjón riddarasagnanna, sem ásamt hjarðsögum voru skáldsögur
þess tíma og mikið lesnar eða á þær hlustað, rak hann sig fljótt á
þá staðreynd, að raunheimurinn og heimur riddarasagnanna áttu
fátt sameiginlegt. Nema hann neitaði auðvitað að viðurkenna þá
staðreynd og hélt áfram ótrauður. I tíð Cervantes var ekki talað